23.04.1923
Neðri deild: 48. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í C-deild Alþingistíðinda. (2212)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús Pjetursson:

Jeg tók fram við síðustu umr., að mjer virðist svo sem ekki allfáir þingmenn væru á sama máli sem jeg, að landskjörnir þingmenn mættu gjarna falla burtu. Við atkvgr. óskuðu sumir eftir því, að brtt. mín um þetta yrði borin upp í tvennu lagi, svo að hægt væri að samþykkja afnám landskjörinna þingmanna, þó að þingið starfaði framvegis í 2 deildum. Þar sem samþykt var tillaga mín um breytingu á kosningarrjettinum, virtist mjer mönnum vera þetta alvara, og þótti mjer því rjett að flytja hjer brtt. vegna þeirra, sem eru mótfallnir landskjörnum þingmönnum, en vilja ekki sætta sig við eina málstofu. Jeg hefi heyrt, að þessi tillaga eigi talsverðum vinsældum að fagna í hv. deild. Annars fór jeg nógu rækilega út í þessa brtt. við síðustu umræðu, svo að jeg þarf ekki að endurtaka það, enda hreyfði þá enginn verulegum mótmælum gegn þessu ákvæði. Í öðrum brtt. mínum hefi jeg reynt að lagfæra breytingar mínar í samræmi við aðrar brtt., sem voru samþyktar við síðustu umræðu.

Þá skal jeg víkja að ræðu hv. 1. þm. Skagf. (MG). Jeg skal geta þess um tillögu hans, um að varamenn taki sæti fyrir þingmenn, sem forfallast, að það getur verið mikið álitamál, hvort sömu ákvæði eiga að gilda um menn, sem eru kosnir hlutbundnum kosningum í kjördæmum, eins og um landskjörna þingmenn. Jeg legg ekki kapp á þetta, en vil aðeins benda á, að ekki er nauðsynlegt að samræmi sje í þessu.

Þá ber sami hv. þm. fram brtt. um að taka upp aftur gamla aldurstakmarkið fyrir kosningarrjetti til landskosninga. Taldi hann það sjálfsagt, ef frv. ætti að ná að ganga fram. Jeg tel það alls ekki sjálfsagt. Það geta verið ýmsir hjer í hv. deild, sem vilja hafa sama kosningarrjett og kjörgengi um landskjör sem kjördæmakosning, svo að vel gæti hugsast, að hans tillaga yrði feld, þó að brtt. mín um afnám landskjörinna þingmanna næði ekki samþykki, og menn vildu hafa sömu skilyrði um kosningarrjett og kjörgengi um hvoratveggja kosninguna.

Hv. þm. var aðallega á móti því að fella niður landskjörið af því, að hv. Ed. mundi aldrei fallast á það. Þetta er einungis grýla. Að kvenfólk muni leggjast á móti stjórnarskrárbreytingu af þessum ástæðum, nær auðvitað engri átt. Jeg get ekki hugsað mjer, að hv. þm. vilji gefa í skyn, að konur geti ekki komist að í kjördæmum, jafnt sem karlmenn, og þurfi því að halda á landskjörnum þingmönnum vegna þeirra. Það væri að gera alt of lítið úr kvenfólkinu.

Hv. þm. sagði, að þessi breyting mundi fella frv. algerlega, því að landskjörnu þingmennirnir mundu verða á móti henni. Þó að svo væri, þyrfti þessi hv. deild ekki að taka neitt tillit til þess. Í þessu máli verður hver og einn að fara eftir sinni sannfæringu, þó að landskjörnu þingmennirnir reyndu að hanga á eigin atkvæði. En jeg efast um, að þeir mundu gera það, þegar á hólminn kemur.

Það er mótsögn hjá hv. þm. Skagf. (MG), er hann beiddi menn að greiða ekki atkvæði gegn frv. vegna ráðherratölunnar, því að hana mætti laga í Ed. Hví gæti það þá ekki alveg eins orðið samkomulagsatriði í hv. Ed., hve lengi umboð þeirra landskjörinna þingmanna, sem nú sitja, skuli gilda. Jeg sje ekkert því til fyrirstöðu, að samþykkja þessa brtt. til hv. Ed. svo að landskjörnu þingmennirnir geti skamtað sjer þann tíma, sem þeir vilja sitja. Jeg geri því fullkomlega ráð fyrir, að hv. þm. sýni þessum brtt. velvild, og jeg veit með vissu, að meiri hluti þessarar hv. deildar er því mjög hlyntur, að landskjörnir þingmenn verði feldir niður. Og því verður veitt eftirtekt um alt land, hvernig atkvgr. um þessa brtt. fer í dag.