13.04.1923
Efri deild: 39. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í C-deild Alþingistíðinda. (2397)

137. mál, byggingarnefnd landsins

Flm. (Jónas Jónsson):

Það er stuttlega gerð grein fyrir frv. í greinargerð þess, og frv. er borið fram í samræmi við húsabyggingameistara. Tilefni þess er það, að byggingarnefnd Reykjavíkur neitaði stjórninni um leyfi til að breyta pakkhúsi, er ríkið á, og heitir Nýborg, svo að hægt væri að nota það handa vínversluninni. Þessi neitun var algerlega ástæðulaus og hefir bakað landinu mikið tjón, því það hefir orðið að greiða óheyrilega háa leigu fyrir húsnæði handa þessari verslun. Og það, sem komið hefir fyrir einu sinni, getur komið fyrir aftur, og þess vegna verður að koma í veg fyrir það, að einstakar byggingarnefndir geti skaðað landið stórkostlega af einhverjum dutlungum eða vegna hagsmuna einstakra manna. Það er því eðlilegt, að einhver dómstóll sje til, sem geti komið í veg fyrir slíkt, og frv. fer fram á að skapa slíkan dómstól. Jeg vil geta þess, að húsagerðameistari hefir ekki gert till. um, hverjir eigi þar sæti, en jeg held, að ekki verði um það deilt, að þeir menn, sem frv. tilnefnir, sjeu sjálfsagðir, en það eru húsgerðameistari, brunamálastjóri og kennari í heilsufræði við Háskóla Íslands. Sá síðast taldi er sjerstaklega valinn vegna þess, að sá maður er flestum kunnugri á þessum sviðum og hefir mikið um þau hugsað og ritað. Frv. fer ekki fram á nein útgjöld úr ríkissjóði, því ætlast er til að nefndin vinni kauplaust. Jeg vona, að frv. verði samþykt og fái greiðan gang gegnum deildina.