27.02.1923
Neðri deild: 7. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í C-deild Alþingistíðinda. (2551)

16. mál, afnám landlæknisembættisins og stofnun heilbrigðisráðs

Magnús Pjetursson:

Það var ekkert nýtt í ræðu hæstv. forsrh. (SE), sem jeg þarf að svara. Þó var það eitt atriði, er jeg vil taka til athugunar, þar sem hann blandar málum og telur mig í flokki þeirra, sem berjast á móti sparnaði. Mjer þykir dálítið skrítið, er hæstv. forsrh. sagði, að sá sparnaður, sem þetta frv. hefir í för með sjer, verði sem svarar árslaunum landlæknis. (Forsrh. SE: Jeg sagði það ekki, heldur að sparnaðurinn gæti orðið minni en ætlast væri til). Jæja, látum það gott heita, úr því að forsrh. gengur nú frá því. Þá sagði hann, að þungamiðjan væri hin sama í þessu frv. og í frv. frá 1919. En þetta er fjarri öllum sanni Því það frv. fór fram á mjög svipað fyrirkomulag og nú er. Þar átti að vera fastur embættismaður, sem engin önnur störf hefði á hendi, enda var það kallað grímuklætt landlæknisembætti.

Hæstv. forsrh. (SE) vildi sanna, að starf landlæknisembættisins væri ekki eins mikið og jeg taldi, og ræddi mikið um afrek Guðm. Hannessonar í því embætti, og var leitt að heyra úr þeirri átt, hve mikla áherslu hann lagði á endurbótastarfsemi hans á fyrri embættisfærslu landlæknis, og taldi bætt fyrir gamlar syndir. (Forsrh. SE: Er það þá ósatt ?). Já, jeg tel það ekki vel sæmandi af hæstv. forsrh. (SE) að bera landlækni á brýn gamlar syndir, en hitt er aftur á móti víst, að Guðm. Hannesson vann mikið verk og gott, við samning 10 ára skýrslnanna. Samt sem áður er það engin sönnun fyrir því, að lítið sje að starfa í landlæknisembættinu, því ekki þykir mjer líklegt, að mikið hafi þá jafnframt verið um önnur störf, og síst þá annað en dagleg störf, en ekkert af hinum meiri eða alvarlegri störfum. Enda mun þetta satt vera.

Hæstv. forsrh. (SE) sagði, að fleira mætti nefna því til sönnunar, að ekki væri mikið að gera í landlæknisembættinu, og var þar með hálfgerðar dylgjur. Jeg býst við, að hann hafi þar viljað láta skilja, að núverandi landlæknir starfaði lítið í sínu embætti. Um leið og jeg auðvitað mótmæli þessu, þá vil jeg benda á, hversu hjákátleg skoðun það er, að þó einhvern tíma væri miður starfandi maður í einu embætti, þá ætti þess vegna að rjúka í að leggja embættið niður. Í samræmi við það ætti að hætta við að hafa stjórn í landinu, ef einhver stjórn eða einhverjir ráðherrar reyndust óstarfhæfir, eins og stundum þykir koma fyrir.

Hæstv. forsrh. (SE) vildi halda því fram, að ekki hvíldu á landlæknisembættinu eins mikil störf og jeg ljet í veðri vaka. En þetta er ekki skoðun mín eins, heldur álit læknadeildar háskólans og Læknafjelagsins, og verður ekki hjá því komist að taka mark á því, sem öll læknastjett landsins segir einróma.

Þá var hæstv. forsrh. (SE) að minnast á, að tryggilegar væri um hnútana búið, ef fleiri menn en einn bæru ábyrgð á heilbrigðisstjórn landsins, og mun hann þar hafa aðallega átt við sóttvarnirnar. Jeg get frætt hann á því, að um þetta eru skoðanir manna víða skiftar. Með ýmsum þjóðum er nú verið að hverfa frá því, að fjölmenn ráð eða nefndir stýri þeim málum, en hitt tekið upp, að fela einstökum mönnum yfirstjórn þeirra. Víða eru slík ráð einungis ráðgefandi, en bera enga ábyrgð. Það var einnig aðeins nokkurs konar ráðgefandi ráð eða nefnd, sem allsherjarnefnd lagði til að stofnað væri hjer á þinginu 1919, sem sje sóttvarnarráðið.

Mjer skildist á ræðu hæstv. forsrh. (SE), að hann teldi nú fyrirkomulagsatriðið, en ekki sparnaðinn, þungamiðju frv., sem sje, að taka einn af prófessorum læknadeildarinnar eða einhvern annan og gera hann að landlæki, auðvitað undir öðru nafni. En þá er hann kominn aftur inn í hið dauðadæmda frv. frá 1919.

Annars man jeg ekki eftir fleiru í ræðu hæstv. forsrh. (SE), er jeg þurfi að svara; virðist mjer ráð stjórnarinnar mjög á reiki, því að eftir ræðum hæstv. forsrh. (SE) stendur nú ekki steinn yfir steini af hinum upphaflegu fyrirætlunum hennar í þessu máli. Og breyti hv. allshn. þessu frv. samkvæmt tillögum hæstv. forsrh. (SE), geri jeg ráð fyrir, að það verði tæplega þekkjanlegt, er það kemur aftur hingað í deildina.