25.04.1923
Efri deild: 48. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í C-deild Alþingistíðinda. (2673)

94. mál, friðun Þingvalla

Frsm. meiri hl. (Jón Magnússon):

Út af orðum háttv. 2. þm. Rang. (GGuðf) skal jeg taka það fram, að það var annað atriði, sem greindi meira á um í nefndinni en gjaldið, þó jeg vitanlega væri á móti því. En jeg taldi heppilegra, að mál þetta væri tekið upp af stjórninni, og jafnframt taldi jeg það ekki skaða, þó að það biði næsta þings, og sömu skoðunar er hæstv. forsrh. (SE), sem nefndin hefir talað við um þetta, og þó er málinu hlyntur.

Þá er eitt atriði, sem rjett virðist að athuga í þessu máli, og það er, hvort ekki muni þurfa að greiða sveitarfjelaginu fje, ef búskapur á tiltölulega mörgum jörðum verður takmarkaður eða jafnvel lagður niður. Því að það hefir verið venja, ef t. d. jarðir hafa verið lagðar undir kaupstaði, að greiða hlutaðeigandi sveitarfjelagi fyrir þann tekjumissi, er það hefir orðið fyrir við að missa jarðirnar.

Þá hefir og komið til orða að setja almennan skóla á stofn á Þingvöllum, og í tilefni af því hefir nefnd í Stúdentafjelaginu lagt til, að þetta mál verði látið bíða næsta þings, og hið sama hefir fornmenjavörður gert áður, því að við það tapast ekkert annað en fje það, sem inn kynni að koma í sumar af inngöngueyri.

Hvort friða þurfi svo stórt svæði sem gert er ráð fyrir í frv., tel jeg efasamt, og jafnframt, hvort taka eigi upp þinghelgi á því öllu, því að hin forna þinghelgi mun ekki hafa náð nema frá vatninu upp að Almannagjá og Flosagjá. En ekki um efri vellina.

Þá er enn eitt, sem greinir á um, sem sje, hvort eigi að leyfa mönnum að búa á þessu svæði.

Minni sögulegu tilfinningu er þannig varið, að mjer finst vel við eiga að byggja á þessu svæði, eins og Björn Þórðarson hæstarjettarritari talar um í ritgerð sinni. Því að áður voru þarna búðir. Og þar var verslað, keypt og selt og margt fleira gert. Ekki finst mjer því nauðsynlegt, að Valhöll verði flutt í burtu þaðan, sem hún er nú. Mjer finst beint eðlilegt, að gistihúsið þurfi að vera þarna.

Skóginn tel jeg sjálfsagt að friða, og jeg er ekkert á móti því, að ríkissjóður leggi fram fje til þess. Annars vilja vitanlega allir, að Þingvellir líti sem best út.

En mjer finst svo margt vera í þessu máli, sem þurfi vel að athuga, en þó sjerstaklega, hve marga menn þurfi að taka þarna upp af jörðum sínum. Og nú, þegar brauðið er óveitt, er vitanlega sjálfsagt að veita það ekki nema með þeim skilyrðum, að ekkert verði því til hindrunar, sem gera á, þó að það verði veitt. Jeg skal taka það fram, að háttv 2. þm. S.-M. (SHK) er mjer ekki samdóma að öllu leyti, en hann telur þó saklaust, að málið biði til næsta þings. Einnig erum við báðir samdóma um, að ekki sje rjett að taka þetta umædda gjald. Auðvitað er inngangseyrir einatt greiddur, t. d. í dýragarða.

Jeg vil því undirstrika það, að jeg tel það sjálfsagt, að ef farið verður að heimta gjald af gestum þeim, er heimsækja Þingvöll, þá verði ríkið að sjá fyrir sæmilegri aðbúð gesta þar.

Annars geri jeg það ekki að neinu kappsmáli, hvort mál þetta verður afgreitt nú, eða látið biða næsta þings.