20.04.1923
Efri deild: 44. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í C-deild Alþingistíðinda. (2710)

148. mál, afhending á landi til kirkjugarðs í Reykjavík

Frsm. (Einar Árnason):

Við 2. umr. fjáraukalaganna fyrir 1921 hjer í þessari háttv. deild, upplýstist það, að kirkjugarðurinn hjer í Reykjavík væri allþungur baggi á ríkissjóði, og kom þá fram, að á síðastliðnum árum hefði hann kostað ríkissjóð 30–40 þús. kr. Enn fremur kom það fram, að á næstu árum myndi ríkissjóður verða að greiða til hans enn þá meira fje en hann væri þegar búinn. Fjárveitinganefndinni fanst því nauðsyn til bera að reyna að ljetta þessum bagga af ríkissjóði, og þá helst með því að hækka legkaupið.

Lög, sem ákveða legkaupið, eru frá 1915, og er þar ákveðið, að legkaup fyrir börn yngri en 2 ára skuli vera 2 kr., en 4 kr. fyrir aðra. Þetta legkaup gildir fyrir 25 ár. Og vilji maður helga sjer grafreit í 50 ár, þá skal greiða 8 kr. fyrir hvern legstað. En vilji maður helga sjer grafreit meðan kirkjugarðurinn stendur, þá skuli greiða 16 kr. fyrir hvern legstað.

Þessar upphæðir hefir nefndin hækkað rúmlega til helminga. Auk þess bætt við nýju ákvæði um legkaup fyrir múruð grafhýsi.

Í núgildandi lögum er ákveðið, að legkaupið renni til Reykjavíkurdómkirkju, en nefndinni fanst rjettara, að það rynni til ríkissjóðs, úr því hann á að kosta viðhald garðsins.

Nefndin getur ekki sagt um, hvort þessi hækkun á gjöldunum muni duga fyrir uppfyllingunni á garðinum. En þar sem þetta gjald verður 10–12 kr. á hvern legstað, má búast við að það hrökkvi langt og kostnaðurinn við uppfyllinguna verði því ekki tilfinnanlegur fyrir ríkissjóð.

Þar sem mál þetta er komið frá nefnd, virðist ekki þörf að vísa því til nefndar. Vænti jeg því, að það fái að ganga til 2. umr. nefndarlaust.