28.02.1923
Efri deild: 7. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í C-deild Alþingistíðinda. (2919)

34. mál, íþróttasjóður í Reykjavík

Jón Magnússon:

Jeg efa það ekki, að tilgangur hv. flm. (JJ) með frv. þessu sje góður. En jeg held, að við verðum að líta okkur nær. Við munum, að 1918 var bænum leyft að leggja á skemtanaskatt, því ber ekki að neita, að það er rjett og gott að nota skemtanafýsn fólksins til þess að ná fje til bæjarþarfa, því að þær má telja nauðsynlegar. Menn muna nú hvernig fór, þegar skatturinn var lagður á íþróttamennina. Þá komu allir þm. Reykv. með frv. um að sleppa áhugaíþróttamönnum við skatt. Þeir töldu skattinn á íþróttirnar byrði, en hins vegar væri ekkert á móti því að leggja skattinn á atvinnuíþróttamenn. Út úr þessu voru áhugaíþróttamenn leystir frá skemtanaskatti. Nú geri jeg ráð fyrir því, að þeir muni ekki nú í ár fagna því að eiga að borga helmingi hærri skatt en aðrir. Háttv. flm. (JJ) býst við, að þeir muni fúsir að leggja hann á sig, er honum sje varið til svona þarflegs fyrirtækis. En jeg tel ekki rjett að íþyngja áhugaíþróttamönnum með þessum skatti. Þeir vilja hafa það fje, sem þeir fá inn, til eigin umráða og eigin þarfa, svo sem til íþróttavallar o. s. frv. Jeg býst við, að það sje rjett, að skatturinn komi ekki eingöngu niður á íþróttamönnunum sjálfum, en það breytir engu í þessu efni. Svo er um alla slíka skatta. Það, sem mjer finst auk þess mjög athugavert, er, að þingið fari upp úr þurru að taka upp mál, sem er sjerstakt bæjarmál. Sundlaugin á að vera kostuð af bænum, þó að vitanlega fleiri en bæjarbúar geti haft gagn af henni.

Það er þá og sett nefnd af bæjarstjórninni til að athuga kostnað við að veita vatninu úr Laugunum hingað til bæjarins og gera þar þvottalaug og sundlaug. Jeg get því ekki sjeð, að það sje ástæða til fyrir þingið að taka að sjer þetta mál, óbeðið af öllum, einkum er bæjarstjórnin hefir sjálf tekið það upp.

Jeg ímynda mjer líka, að það myndi ganga seint að safna nægu fje. Að vísu hefi jeg ekki ábyggilegar skýrslur um það, hvað inn kemur fyrir íþróttasýningar hjer. En jeg hefi heyrt, að það myndi vera fullmikið áætlað að gera ráð fyrir 15 þús. krónum á ári. Yrðu því um 3 þúsundir kr., sem til þessa sjóðs færu árlega. Færu því mörg ár til þess að safna í sjóðinn, þangað til hœgt yrði að byggja. Myndu því fljótt koma fram kröfur um, að ríkið legði fram tillag á móti þessu. Tel jeg rjett að láta bæjarstjórnina eina um þetta.