11.05.1923
Efri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í D-deild Alþingistíðinda. (3036)

159. mál, öryggi sjómanna

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg get sagt alveg hið sama um þessa till. sem hina fyrri, sjerstaklega fyrri liðinn, að stjórnin mun fús að taka hana til greina. Það væri mikið unnið, ef hægt væri að koma í veg fyrir skipskaða og druknanir með samskonar tilkynningum og framkvæmdar eru í Noregi. Stjórninni mun því ljúft að athuga þetta sem best og upplýsa það fyrir næsta þingi.

Um síðari lið till. er það að segja, að mjög æskilegt væri að hafa sjóð til handa ekkjum og börnum druknaðra manna. En jeg hygg, að rjettara væri að landið alt styrkti það mál. Á sjávarútveginum eru nú svo há gjöld á ýmsa vegi, að ekki sýnist við það bætandi. Þetta gæti þó talist álitamál, enda ekki farið fram á annað í till. en að stjórnin láti rannsaka það. Þegar rannsakað hefir verið, hversu mikið fje muni til þurfa til þess að ekkjum og börnum látinna sjómanna sje trygður sæmilegur lífeyrir, þá skilst mjer næsta hlutverk stjórnarinnar sje að rannsaka, hvaðan fje þetta skuli taka, og samkvæmt þáltill. mun tilætlunin vera að leita þá fyrst til sjávaratvinnuveganna. En hins vegar skil jeg ekki þáltill. svo, að ætlast sje til, að fjárins verði einvörðungu leitað hjá þeim, heldur sje það einnig hlutverk stjórnarinnar að leitast annarsstaðar fyrir um öflun þess, og gera síðan till. sínar samkvæmt þeim athugunum. Að síðustu vil jeg svo aftur taka það fram, að jeg álít einkum fyrri lið till. mjög þýðingarmikinn.