20.04.1923
Neðri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í D-deild Alþingistíðinda. (3118)

130. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Lárus Helgason:

Jeg þarf ekki að fjölyrða um mál þetta, m. a. af því, að hv. þm. Ak. (MK) hefir að ýmsu leyti tekið af mjer ómakið. En jeg verð, sem meðflutningsmaður till., að fara nokkrum orðum um þau ummæli, sem sumir hv. deildarmenn hafa haft um till. og það, hvers vegna hún sje fram komin. Við höfum sem sje farið mjög rólega og stillilega í þetta mál. Við vildum í vetur tala um málið við samþingismenn okkar í kyrð og næði á lokuðum fundi, en eins og kunnugt er, þá gat það ekki tekist. En aðalástæða þess, að jeg hefi gerst meðflutningsmaður þessarar till, og að jeg ásamt meðflutningsmönnum mínum taldi þess þörf, er sú, að þetta virtist vera sá eini möguleiki til þess að fá fræðslu í þessu efni, einkum þar sem hæstv. fjrh. (MagnJ) skýrði mjer og fleirum frá, að hann hefði ekki aðgang að bankanum til þess að kynna sjer fjárhagsástæður hans. Þetta út af fyrir sig gerði mál þetta athugavert í mínum augum. (PO: Hann gaf þó skýrslu um hann í fyrra). Þegar jeg sá því, að þessi leið með fjármálaráðherrann var ekki möguleg, eftir hans frásögn, áleit jeg nauðsynlegt að koma með tillöguna. Jeg skal svo ekki tefja umr.; þær verða nógu langar samt, en vil hjer með leyfa mjer að beina þeim fyrirspurn til hæstv. forsrh. (SE), hvernig á því stendur, að fjármálaráðherrann skuli ekki hafa aðgang að bankanum til þess að athuga fjárhagsástæður hans og tryggingar fyrir fje því, sem landið hefir lagt honum.