02.03.1923
Neðri deild: 10. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í D-deild Alþingistíðinda. (3187)

40. mál, skipun nefndar til að íhuga vatnamálin

Jakob Möller:

Mjer finst ótímabært að svo stöddu að þjóta í að skipa nefnd hjer í deildinni, þegar málið er aðeins nýkomið í nefnd í efri deild. Málið hefir verið athugað nákvæmlega hjer í deildinni á undanförnum þingum. Þótt frestað væri ákvörðun um það nú, mætti væntanlega komast að einhverri niðurstöðu síðar. Þessu máli virðist ekki liggja á afgreiðslu frá þinginu. Það er alt öðruvísi ástatt nú heldur en þegar það kom fyrst á dagskrá og menn bjuggust við framkvæmdum. Nú er deyfð og dofi og engar líkur til framkvæmda. Það virðist því ekki úr vegi, fyrst dregist hefir að setja allsherjarlög um vatnamálin, að beðið sje með það fram yfir næstu kosningar. Ætti það einmitt mjög vel við. Og skil jeg ekkert í, hvert óðagot er komið á hv. flm. (SvÓ), að vilja ljúka málinu á þessu kjörtímabili. Það er eins og hann sje smeykur við kosningamar. Treysti hann sínum málstað eins vel og áður, ætti honum að vera þökk á drættinum. Eftir því, sem með málið hefir verið farið áður, finst mjer, að stjórnin hefði vel getað látið undir höfuð leggjast að leggja það fyrir þingið að þessu sinni, einmitt með tilliti til væntanlegra kosninga. Leyfi jeg mjer því að leggja til, að forseti beri undir deildina að fresta umræðum, eða málið verði tekið af dagskrá.