08.05.1923
Sameinað þing: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í D-deild Alþingistíðinda. (3285)

133. mál, strandvarðar og björgunarskip

Sveinn Ólafsson:

Hæstv. forsrh. (SE) óskaði eftir, að till. væri tekin aftur og þá brtt. líka. Mjer virðist hjer vera um tvent ólíkt að ræða. Með samþykt aðaltillögunnar er ekki ráðist í neitt, sem kostar fje, heldur einungis það, sem nauðsyn er á og þarf að gerast hvort sem er, og eins þótt brtt. á þskj. 318 verði samþykt; en það er óvarlegt að samþykkja hana áður en nægur undirbúningur hefir farið fram, sem gert er ráð fyrir í aðaltillögunni.

Það hefir nú verið nógsamlega tekið fram af hv. flm. brtt. (HSt) og einnig viðurkent af hæstv. forsrh. (SE), að ekki sjeu líkur til, eins og nú er komið, að þetta komist í framkvæmd fyrst um sinn, þótt menn væru allir af vilja gerðir. Og þótt gert væri hið ítrasta til þess að byggja strandvarnarskip nú á þessu ári, mundi það ekki vera kleift, nema með skyndiundirbúningi, sem við mundum sjá eftir síðar.

Það er síður en svo, að viljann vanti í þessu efni, og ekkert væri mjer kærara en ef strandvarnarskip, eða björgunarskip, sem það mundi heldur heita, væri tilbúið nú í lok ársins.

Hv. þm. Snæf. (HSt) virtist álíta, að þessi aðaltill. okkar stefndi að seinlæti, að dráttur yrði á málinu fyrir hennar sakir. Jeg held nú, að hefði engin tillaga komið fram, þá hefði ekkert orðið úr þessu á komandi ári. Jeg geri ráð fyrir, að það verði fljótunnið verk að framkvæma þessa rannsókn, sem aðaltill. fer fram á.

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) hefir svarað því í ræðu hv. þm. Snæf. (HSt), að ekki geti farið saman björgunarstarf og strandgæsla. Er óþarft að svara því frekar. Þetta getur vel farið saman, ef útbúnaður skipsins er haldkvæmur til hvorstveggja. Og enda þótt skipið þyrfti að yfirgefa eftirlitssvæðið 3–4 sinnum á ári til þess að bjarga, þá væri það ekki mikil töf hjá því, sem nú er, þegar strandvarnarskipin liggja oftast hjer inni. Auk þess yrði danskt strandvarnarskip samtímis, sem hjeldi áfram eftirlitinu.

Hv. þm. Snæf. (HSt) hneykslaðist, á því, að tekin yrði upp þegnskylduvinna fyrir stýrimannaefni. Því hefir einnig verið svarað, og þarf jeg ekki þar við að bæta. En frá mínu sjónarmiði get jeg sagt það, að jeg myndi ekki sjá eftir því, þótt þegnskylduvinna næði til fleiri manna; álít jeg, að það gæti verið ágætt uppeldismeðal. En hjer er það ekki neitt aðalatriði, og getur ekki talist þegnskylduvinna, heldur einn liður í námi stýrimannaefna, til þess að búa þá undir starf sitt.

Mitt álit er, að ef á annað borð á að samþykkja nokkuð, þá sje það aðaltill. Hún kemur hreyfingu á málið, en hitt tel jeg fráleitt, að ráðast í þetta fyrirtæki án allrar rannsóknar.