08.05.1923
Sameinað þing: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í D-deild Alþingistíðinda. (3291)

133. mál, strandvarðar og björgunarskip

Eiríkur Einarsson:

Margir hafa nú þegar talað, og hafa allir verið líkrar skoðunar um það, að hjer sje mikilsvert nauðsynjamál á ferðinni, en greinir aftur á móti um, hver leiðin sje heppilegust til framkvæmdanna. Vil jeg nú aðeins geta um einn þátt þessa máls, sem aðrir hafa ekki fært í tal, en jeg tel þó engu að síður afarþýðingarmikinn. Það hefir verið rætt um undirbúning hæstv. stjórnar, og er það rjett, að hæstv. landsstjórn hefir tekið hlýlega og sanngjarnlega í þetta mál, en sá undirbúningur hennar er kominn skamt á veg, og því alt meginmálið eftir. Hv. þm. hafa leitt hjá sjer að tala um, hversu hentug hæstv. landsstjórn sje til þess að annast um framkvæmd þessa máls, en það er mikilvægt atriði, sem vel mætti ráða afdrifum þessarar till., hvort stjórninni sje treystandi að bera slíkt stórmál fram til sigurs eða ekki.

Við, sem þekkjum til viðskiftalífsins, vitum, að það er þýðingarmesta eða mjög þýðingarmikið atriði í viðskiftum, hver á að annast kaupin, hvort heldur er að ræða um skip eða skipsfarm eða önnur viðskiftaefni. Það er valdast, hver á heldur. Ætla jeg mjer ekki að fara að dæma um, hvernig hæstv. stjórn mundi takast þessi kaup, sem velta á fleiri hundruð þúsund krónum, en jeg tel eðlilegt, að sú spurning vakni, hvort ekki væri sanngjarnt að láta í þessu stóra máli atkv. vera undir því komið, hvert traust hv. þm. bera til hæstv. landsstjórnar yfirleitt. Úr því jeg minnist á þetta, sem ekki er ótímabært, skal jeg láta þess getið, að mjer þykir undarlegt, hversu langt hefir liðið á þingið án þess að þetta bærist í tal. Til stendur, að þingi verði slitið nú í þessari viku, og er því alt útlit fyrir, að þing og stjórn ætli að skilja án þess að skorið verði úr því, hvort hæstv. stjórn hafi fylgi þingsins eða ekki. Þess vegna vil jeg ekki láta hjá líða að sýna mína afstöðu til hæstv. landsstjórnar. Ætla jeg þess vegna að leggja fram rökstudda dagskrá í hinu hv. þingi, sem felur í sjer afstöðu mína til hæstv. stjórnar og þá jafnframt, hvernig jeg tel sæmilegast að ljúka umræðum þessa máls nú að þessu sinni. Ætla jeg að lesa dagskrána hjer upp, með leyfi hæstv. forseta:

Með því að Alþingi treystir ekki stjórn þeirri, er nú fer með völd í landinu, telur það ekki gerlegt að fela henni málefni þetta, sem vissulega er ábyrgðarmikið og mikilsvert, og tekur þingið því fyrir næsta mál á dagskrá.

Þegar jeg nú hefi lesið hana, vona jeg, að hv. þm. telji sjer þetta mál, afstöðuna til stjórnarinnar, viðkomandi, en ekki óviðkomandi.

Um leið og jeg flyt þetta vil jeg lýsa því yfir, að jeg tel hæstv. stjórn ekki slíka, að jeg geti ljeð henni traust mitt. Að vísu geng jeg út frá því, að meiri hluti hv. þings sje fylgjandi stjórninni, og er þess vegna við því búinn, að þessi rökstudda dagskrá mín verði feld, en jeg tek því rólega, og þótt svo reynist, að jeg verði einn í minni hluta, þá á jeg þó heimtingu á að sjá, hvort hinir sjeu í raun og veru fylgjandi hæstv. stjórn, segi til litar. Þetta tel jeg nauðsynlegt að sannist. Jeg gat þess í fyrra, þegar fyrverandi stjórn var vikið frá, að nauðsynlegt væri, að afstaða yrði tekin til landsstjórnarinnar á hverju þingi, svo að greinilega sæist, hvort landsstjórnin nyti trausts, og þá hverra. Þetta virðist mjer ekki hafa sýnt sig núna, heldur heyrði jeg jafnvel nýskeð tvo hv. þm., sinn úr hvorum flokki, sendast orðskeytum, þar sem hvor um sig bar upp á hinn, að hann styddi hæstv. stjórn, og notuðu það sem skammaryrði. Slíkt ástand er algerlega óþolandi.

Hæstv. landsstjórn mætti vera mjer þakklát fyrir að koma fram með þessa dagskrá, svo að hún geti fengið sína vissu um það, hvern hún hefði með sjer og hvern á móti sjer, svo að hún framvegis gæti unnið í samvinnu og samræmi við stuðningsmenn sína. þetta þýðingarmikla málefni gaf mjer ástæðu til þess að flytja nú dagskrána, og málefnið, sem hjer er til umræðu, er vel til þess fallið að vera prófsteinn um þetta. Þjóðin þarf að vita afstöðu fulltrúa sinna til sjerhverrar landsstjórnar, og þeim má ekki líðast að geta sagt sitt hverjum, eftir því sem hentar í hvert sinn, og hv. þm. sjálfir þurfa einnig að vita það, en þó einkanlega hæstv. landsstjórn sjálf. þetta er megintilgangur dagskrár minnar, en sje það sannað fyrir mjer, að fram muni koma þáltill., annaðhvort frá hæstv. stjórn eða einhverjum þm., hvort heldur traustsyfirlýsing eða vantraustsyfirlýsing, svo að fylgi hæstv. stjórnar komi berlega í ljós, þá er sama tilgangi náð, og mjer er þá síður kappsmál um dagskrána.