23.04.1923
Efri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í D-deild Alþingistíðinda. (3311)

146. mál, prestsþjónusta í Mosfellsprestakalli

Jón Magnússon:

Það er að mestu leyti alveg rjett, sem hv. fhn. (JJ) sagði, að þeir, sem halda upp á formið, verða á móti till. Með till. er sem sje farið fram á að breyta prestakallalögunum, þar sem stjórninni er heimilað að sjá fyrir þjónustu prestakallsins. Jeg er að vísu samdóma hv. flm. (JJ) um, að það er efasamt, hvort rjett sje lögum samkvæmt að setja mann í prestakallið, en jeg get samt ekki fallist á till. Jeg bjóst satt að segja við, að kirkjumálaráðherra yrði hjer, svo að hægt væri að vita, hvort honum fyndist þáltill. ekki takmarka vald hans. Jeg held, að úr því að Mosfellsprestakall verður ekki gert að sjerstöku prestakalli, þá sje líklegasti vegurinn til að leysa úr þessu sá, að Garðaprestur þjóni Lágafellssókn fyrst um sinn, enda hefir hann nú ungan kapellán sjer til aðstoðar. Hins vegar finst mjer mögulegt, eins og hv. flm. (JJ) sagði, að Viðeyjarsókn sje þjónað af dómkirkjuprestunum; þeim ætti ekki að vera ókleift að bæta svo litlu við sig, þá er aðeins eftir Brautarholtssókn, sem verður að sjá fyrir sjerstakri þjónustu. Auðvitað er það sjálfsagt, að æskilegt er, að þjónusta prestakallsins verði ríkissjóði sem ódýrust, þó svo, að sóknunum sje sjeð fyrir forsvaranlegri prestsþjónustu. Annars finn jeg ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið, sem auðvitað snertir sjerstaklega hæstv. kirkjumálaráðherra.