26.03.1923
Neðri deild: 29. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í D-deild Alþingistíðinda. (3420)

41. mál, landhelgi og landhelgisgæsla

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Það lá hvergi í orðum mínum, að fjeð væri eigi eins trygt í Landsbankanum, en mjer finst vera mjótt á milli og ekki gott að gera greinarmun á, hvort fjeð sje betur komið þar eða í ríkissjóði. Það er hverju orði sannara, að það þyrfti að taka lán til þess að svara fjenu öllu út, og það, sem hv. þm. (SSt) var að stagast á, er í raun og veru ekki annað en það, að búið ætti að vera að taka það lán, sem mjer hins vegar ekki finst svo mjög aðkallandi, þar sem ekki á að gera meira en leggja fjeð í sparisjóðsbók í Landsbankanum.

Jeg skal ekkert fullyrða um, hversu skynsamlegt það ákvæði laganna er, að leggja skuli fjeð inn í Landsbankann; en það er gefinn hlutur, að lögin eru ekki að sporna við því, að fjeð sje í ríkissjóði, því það hlýtur að ganga gegnum hann og hafa þar einhverja viðstöðu. Miklu fremur er lögin svo að skilja, að þegar fjeð er tekið úr ríkissjóði, skuli það lagt inn í Landsbankann, en ekki annarsstaðar, t. d. ekki í Íslandsbanka; Þá var nefnilega ekki til alment ákvæði um það efni.