09.05.1923
Neðri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í D-deild Alþingistíðinda. (3429)

62. mál, steinolíueinkasalan

Jón Þorláksson:

Hæstv. atvrh. (KIJ) kom með fremur litlar upplýsingar í þessu máli. Hann rakti að vísu hina fyrri sögu þessa einokunarmáls, en hana má nú lesa í Alþingistíðindunum, eins og menn vita. En um það, sem hefir gerst áður og síðan þessir sölusamningar voru gerðir, það sagði hann minna um.

Þegar verið var að undirbúa þessa steinolíueinkasölu af hálfu stjórnar og landsverslunar, hygg jeg, að þeirri steinolíuverslun, sem þá var hjer fyrir í landinu, hafi alls ekki verið gefinn kostur á að koma með sölutilboð. Sumir hafa ef til vill litið svo á, sem hún hafi ekki sjerstaklega til þess unnið, að til hennar væri leitað, en þó álít jeg, að það megi vel viðurkenna það, að Hið íslenska steinolíufjelag hefir birgt landið vel að olíu á undanförnum árum, þrátt fyrir mikla erfiðleika, fyrst á aðflutningum og síðan á yfirfærslum gjaldeyris. En einkum hefði þó mátt líta á það, að þetta | fjelag er ein grein af einhverju stærsta steinolíuframleiðslufjelagi í Ameríku. Og þótt ekki væri nema vegna þess, að það fjelag hefir fram að þessu birgt landið með steinolíu, þá hefði verið sjálfsögð kurteisisskylda að lofa steinolíu úr lindum þess fjelags að keppa við aðra olíu á markaðinum hjer. Og það er víst, að það hefir vakið eftirtekt í Bandaríkjunum, að fram hjá þessu fjelagi var gengið, og sennilegt, að það hafi átt sinn þátt í því að baka íslenskum atvinnurekstri erfiðleika, og talið er, að hækkun tollsins á íslenskri ull í Bandaríkjunum standi í sambandi við þetta. Jeg vil nú hjer með gefa hæstv. stjórn tilefni til að gefa upplýsingar um þessi atriði, en trúi annars, að afleiðingarnar sjeu þær, sem jeg nú hefi sagt.

Lög þau, sem heimila stjórninni þessa í einkasölu, eru sett 1917, og hæstv. atvinnumálaráðherra (KIJ) skírskotaði mjög til þess, hvaða hugsanir menn þá hefðu borið um steinolíueinkasöluna, en fram hjá því hefir verið gengið, að við höfum síðan fengið þungbæra reynslu um það, hversu erfiður verslunarreksturinn er, þegar hann er kominn í hendur hins opinbera. Enda sýna allar till. og umræður um landsverslunina 1921 og 1922, að menn höfðu þá miklu skýrari skoðun á því efni en þeir gátu haft á þingunum 1916 og 1917. Og jeg þori að fullyrða það, að engum okkar, sem standa og stóðum fyrir utan landsverslunarhringinn, gat dottið í hug á síðasta þingi, að komið gæti til mála, að ríkið tæki að sjer steinolíueinkasöluna. Enda skýrði hæstv. atvrh. (KIJ) frá því, að landsverslunin mundi ekki taka að flytja inn almennar vörutegundir, nema svo stæði á, að erfitt væri með útvegun þeirra eða einokun væri komin á þær annarsstaðar, og yrði það þá gert til að halda uppi samkepninni. Þetta viðurkennir líka hæstv. atvrh. (KIJ), en segist hafa í huga sínum undanskilið steinolíuna. En þá verð jeg að segja, að of langt sje gengið í því að þegja og verja vini sína, með því að sitja með þennan yfirborðshug. Frsm. meiri hluta samvinnunefndar gerði steinolíuna að umtalsefni, og bjóst hann við, að því yrði haldið áfram, sem þá var upp tekið, að landsverslunin flytti inn nokkuð af steinolíu til að halda uppi samkepni við steinolíufjelagið. Þá hafði borist út sá orðrómur, að stjórnin væri að gera samning um steinolíukaup fyrir landið við erlent fjelag, og einn þm. (ÓP) gerði þetta sjerstaklega að umræðuefni og spurði stjórnina um þetta atriði og endaði ræðu sína á því, að allur sannleikur um það þyrfti að koma í ljós. En stjórnin neitaði því, að nokkrir slíkir samningar væru á ferðinni. Nú er það þó komið í ljós, að samningamir voru fullgerðir 10. ágúst, og er þar með fullsannað, að byrjað hefir verið á samningunum meðan þing stóð yfir, en það ráð tekið að halda öllu slíku leyndu, með því að annars hefði verið tekið fyrir það. En hafi hæstv. atvrh. (KIJ) verið kunnugt um þessa samninga, er full ástæða til að halda, að það hafi ekki verið af heilum hug mælt, er hann lýsti yfir því, að landsverslunin yrði ekki látin versla með algengar vörur. En jeg er svo góðgjarn, að jeg vil heldur trúa því, að hann hafi ekki vitað, að þetta stóð til.

Um efni málsins, eins og hv. fyrirspyrjandi (JakM) hefir rjettilega skýrt frá, er það að segja, að þegar gripið var á þennan veg fyrir kverkar steinolíuverslunarinnar, þá voru engin vandræði lengur um innflutning á steinolíu, því auk þess sem steinolíufjelagið og landsverslunin fluttu inn, þá var þegar hafinn innflutningur af hendi kaupmanna, og þannig voru allar þær ástæður, sem voru hugsanlegar fyrir því, að heppilegt væri, að landið tæki að sjer steinolíuverslunina, fallnar burtu. Svo mjög höfðu tímarnir breyst frá því á stríðsárunum, að nú var ekkert til fyrirstöðu með samkepnina. Þetta volduga Bandaríkjafjelag gat t. d. fyrir stríðið ráðið svo að segja eitt verði steinolíu á heimsmarkaðinum, en nú eru komin upp voldug fjelög annarsstaðar, sem ætla sjer að bjóða hinu birginn. Og þannig voru þær leiðir, sem áður voru lokaðar, nú opnar. Því verður því ekki með nokkru móti haldið fram, að þessi ráðstöfun sje gerð til að afstýra einokun annarsstaðar frá, enda er það vitanlegt, að ástæðumar eru alt aðrar; en hvers vegna þá að þegja yfir þeim?

Sönnu ástæðumar eru þær, að forystumenn þess þingflokks, sem stutt hefir hæstv. atvrh. til valda, hafa heimtað þetta af honum, því þetta var þeim pólitiskt mál, og þingið var leynt því, til þess að það gæti ekki gripið fram í þessa ráðstöfun. Jeg skal ekki að svo komnu máli rekja það, hvers vegna flokksmenn ráðherrans hafa heimtað þetta af honum; seinna gefst ef til vill tækifæri til þess. En hitt þori jeg að fullyrða, að svona er þetta mál undir komið. Og þótt hæstv. atvrh. (KIJ) hafi leynt að verja sinn málstað með því að vitna til afstöðu sinnar 1911–12, er hann vildi gera verslun með kol og steinolíu að tekjugrein fyrir landssjóð, þá verður sú ástæða ekki tekin gild hjer, því eins og kunnugt er, er steinolíuversluninni ekki ætlað nú að vera tekjustofn. En þegar minst er á gróðann, sem af þessari verslun hefir orðið, og það fært sem ástæða fyrir því að færa nú út kvíarnar með einkasölu, þá má líka minnast þess, að þeir aðrir, er verslun reka, leggja ekki alllítið af mörkum til almenningsþarfa, bæði til sveitar og ríkis og það þykist jeg vita, að það, sem steinolíufjelagið hefir greitt til þess, er eins há upphæð og gróðinn á pappírnum af steinolíuverslun landsverslunarinnar. Það er altaf hæpinn ágóði fyrir landið að taka gróðann úr höndum gjaldendanna. Nú er það upplýst, að samningurinn sje gerður til þriggja ára. Frá hvaða tíma hann byrjaði, veit jeg ekki, en víst er um það, að ekki er lengra en svo til samningsloka, að af veiti, að menn fari að átta sig á því, hvað við skal taka, er samningurinn fellur úr gildi. Og þótt engu verði nú um þokað hvað þetta tímabil snertir, þá verður strax á næsta þingi að taka afstöðu til þess, út á hvaða braut skuli fara. Það verður nú væntanlega tækifæri til að bera það undir kjósendur í sumar, en engin von er til þess, að þeir geti nægilega áttað sig á þeim málum, ef þeir hafa engin gögn í höndum. En þau hafa enn þá ekki verið lögð fram og harla litlar upplýsingar gefnar því viðvíkjandi í þessum umræðum. Jeg fyrir mitt leyti held, að þegar taka skal ákvörðun um þetta fyrir framtíðina, þá beri að líta á það, að steinolíuverslunin, sem kemur fram sem einkasala, er eftir eðli sínu mjög áhættusöm verslun. Hún tekur á sig fulla skyldu, að ávalt og alstaðar sje næga steinolíu að hafa í landinu, og henni ber mjög víðtæk skylda til að lána hana útgerðarmönnum og öðrum, sem svo stendur á fyrir, að þeir geta ekki greitt hana í bili, miklu brýnni skylda en nokkurri verslun í frjálsri samkepni. Það hlýtur því að koma í ljós, að landsverslunin verður nauðbeygð til að safna mjög miklum útistandandi verslunarskuldum. Því er það, að öllum þeim, sem álíta varfærni í fjármálum ríkisins nauðsynlega, er ljóst, að það er allra hluta vegna óheppilegt að halda einokunarverslun landsins áfram í þeirri mynd, sem hún er stofnuð í. Í þessu sambandi má geta þess, að ríkissjóður mun nú kominn í skuldir, sem nema um 16 milj. kr. Skiftir máske ekki miklu máli, hvað þessum skuldum veldur, en alment munu ástæðurnar vera taldar tvær af þeim, sem skyn bera á slíka hluti, í fyrsta lagi, að tekjurnar hafa ekki hrokkið fyrir árlegum útgjöldum, og í öðru lagi, að fje ríkissjóðs í hefir verið fest í fyrirtækjum, sem ekki hafa getað og munu ekki geta skilað því aftur. Svo er t. d. um skipakaup landsins og fleiri ófriðarráðstafanir. Nú er svo komið, að vextir og afborganir af þessum lánum munu nálægt 2 milj. kr. á ári, eða með öðrum orðum jafnhá upphæð og fjárhagsáætlunin var fyrir stríð. Þetta er svo mikið fje, að engin von er til þess, að landsmenn fái borið svo mikla skatta og skyldur, svo að nokkuð verði afgangs til verklegra framkvæmda í landinu, og sker þannig fyrir allar þær framfaravonir, sem byggjast á fjárstyrk frá hinu opinbera.

Nú sýnist svo, sem eina færa leiðin hefði verið sú, að draga sem fyrst saman þau fyrirtæki, sem fjeð stendur fast í, og bjarga þannig sem mestu af fjenu til afborgana og greiðslu á þeim lánum, sem hæstir vextir eru af og óhaganlegast er fyrir komið, og koma þannig hinum árlegu afborgunum úr 2 milj. og eins lágt niður og kostur er á. En með steinolíuversluninni er einmitt stigið spor í öfuga átt. Ekkert er hugsað um það að losa um fjeð, sem fast stendur í landsversluninni og skipunum, þótt hægt hefði verið. Einnig má búast við, að verslunin geti ekki haldið að sjer höndum um útlán, og er þá enn meira fje fest en annars. Það er enginn vafi á því, að hjer hefir verið haldið í gagnstæða átt við þá, sem stefna þurfti til, og má gera ráð fyrir, að eitt af aðalmálum næsta þings verði að kippa þessu í lag og koma steinolíuversluninni aftur á frjálsan grundvöll, svo fjeð, sem í henni hefir verið fest, náist aftur og hægt verði að nota það til afborgana hinum miklu skuldum ríkisins. Jeg undanskil hjer verslun með tóbak og þær aðrar vörutegundir, sem eiga að afla landinu tekna; þar þarf ekki að standa fast meira fje en svo, að ávinningur geti orðið af henni. En alt öðru máli er að gegna með það verslunarbrask, sem jeg hefi nú talað mest um, sem aðeins getur orðið til þess að leggja á landsmenn auknar byrðar og aldrei gefur landinu neinar tekjur fram yfir það, ef verslunin væri í höndum einstakra manna.