22.02.1923
Efri deild: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

18. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Jón Magnússon:

Jeg vona, að hæstv. forseti finni ekki að því, þó að jeg segi nokkur orð utan við málefnið. Jeg vildi bera upp þá fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra (SE), hvort ekki megi vænta, að stjórnin leggi innan skamms fyrir þingið frv. um lögfylgjur hjónabands, sem hjer var á ferðinni í fyrra. Með því frv. er lokið við að gera rjett kvenna og karla jafnan í einkamálum. Ef stjórnin gæti ekki fallist á frv., þá gæti hún lagt það fram með athugasemdum, en ef hún sjer sjer það ekki fært, þá mun jeg taka það til athugunar að flytja frv. sjálfur og reyna ef til vill að fá með mjer háttv. 6. landsk. þm. (IHB). En jeg vildi heldur komast hjá því að flytja frv., því að jeg tel í rauninni rjettara, að það kæmi frá hæstv. stjórn.

Þá langar mig til að spyrja um annað frv., og það af persónulegum ástæðum, því jeg hafði gefið loforð viðvíkjandi því. Það er um nokkra kennara, sjerstaklega kennara mentaskólans og stýrimannaskólans, sem eru fastir landssjóðsmenn, en ekki er til lagaheimild fyrir því. Þetta er þeim mjög óþægilegt. Jeg ætla ekki að skýra þetta frekar. Jeg veit, að hæstv. forsrh. (SE) kannast við það. Hann er vitanlega ekki skyldur að svara mjer, en jeg vona þó, að hann geri það innan skamms.