27.04.1923
Neðri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

121. mál, varnir gegn berklaveiki

Bjarni Jónsson:

Það var rjett, sem háttv. 2. þm. N.-M. (BH) sagði, að jeg hefði flutt frv. eftir beiðni kjósenda minna. Svo er þar málum komið, að þeim finst þeir geti eigi til langframa risið undir þeirri byrði, sem berklavarnalögin leggja þeim á herðar, enda er þar ein sveit, að minsta kosti, mikið sýkt. Því var það, að þeir báðu mig að bera fram brtt. í þá átt, að gjaldið skyldi vera kr. 1.50 á mann, en þar sem jeg veit, að sumir hv. þm. vilja fara hóti hærra, hefi jeg einnig tekið tillit til óska kjósenda minna og viljað láta þær einnig koma til atkvæða. Það er raunar orð og að sönnu, að tæringarvarnarlögin eru þungur baggi á ríkissjóði, en hygnir menn hafa þann sið, áður en þeir leggja fje í eitthvert fyrirtæki, að spyrja um það, hvað sje að hafa í aðra hönd. Í þessu máli er um það að ræða að gera hættulegan sjúkdóm og illan viðureignar landrækan, sjúkdóm, sem ef hann nær að þróast, getur eigi aðeins orðið hið mesta þjóðarböl, heldur þjóðardauði, eins og loftslagi hjer er háttað. Jeg vona, að mönnum skiljist, er þeir athuga þetta, að ekki sje nema eðlilegt, að landssjóður leggi nokkuð á sig til útrýmingar slíkum vágesti. En hvað viðvíkur gjaldinu á sýslurnar, þá er það lagt á alveg út í bláinn, því hending ein ræður því, hvar sjúklingurinn á heimili, þegar hann veikist. Þannig getur hlaðist ódæmakostnaður á einstakar sýslur, sökum atvinnu, sem þar er stunduð, eða annars. En þar sem hjer er í eðli sínu um sóttvarnir að ræða, þá ætti í raun og veru hver einasti eyrir að koma úr landssjóði, eða þá frá sýslunum eftir mannfjölda og gjaldþoli, en ekki eftir tölu sjúklinganna. Því það ætti öllum að vera ljóst, að þau sýslufjelög eru, að öðru jöfnu, ófærust til þess að láta fje af hendi rakna, sem flesta hafa sjúklingana. Helst hefði jeg því kosið að bera fram brtt. um það, að sýslurnar yrðu undanþegnar gjaldinu, en þótti það ekki fært að fara svo langt, því jeg gerði ekki ráð fyrir, að sú brtt. gæti átt byr að fagna í þinginu. Hins vegar var mjer sönn ánægja að bera fram þessa brtt., sem hjer liggur fyrir, um það, að gjaldið skuli fært niður í kr. 1.50 á hvern mann í sýslunni, og fara þar að óskum kjósenda minna, sem hvorki telja sjer nje öðrum kleift að greiða meira gjald. Vona jeg því, að háttv. þm. sjái sjer fært að samþykkja lægri töluna, og þó jeg hafi borið fram varatillögu um kr. 2.00, þá er það ekki vegna þess, að jeg telji ekki lægri töluna nógu háa. Því þó ekki muni nema 50 aurum á till., þá safnast þegar saman kemur, og landssjóður stendur altaf best að vígi með greiðslurnar, því hann hefir skattheimtumeistara og skattheimtuheimildir, en sýslurnar hafa yfir engum slíkum gróðavegum að ráða til að jafna á móti álögðum gjöldum. Einstaka sýslur kynnu raunar að geta lagt á tolla, en í flestum tilfellum kæmu þeir aðeins niður á sýslubúum sjálfum, svo að því yrði lítill ljettir.

Jeg vil nú enda mál mitt eins og jeg byrjaði og taka það fram, að útrýming þessarar skæðu veiki er þjóðarhagur og þjóðarnauðsyn, en ekki neinna sjerstakra hjeraða. Og þó eitt hjerað standi nú öðrum betur að vígi í þessu efni, þá má ekki vita, hvað svo verður lengi, ef ekki er tekið röggsamlega í taumana. Tune tua res agitur, paries cum proximus aidet, segir latneska máltækið, eða „þá er einum vá fyrir dyrum, þegar öðrum er inn of komin“, sem það heitir á vorri tungu. Og í þessu liggur það, eins og jeg tók fram í upphafi, að skyldan hvílir á ríkissjóði. Læt jeg svo útrætt um þetta mál.