19.03.1923
Neðri deild: 23. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

24. mál, fjáraukalög 1922

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg verð að þakka hæstv. stjórn fyrir það, hve vel hún hefir tekið í aths. og leiðbeiningar nefndarinnar, því ef fara má eftir orðum hennar. Þá er útlit fyrir, að hún ætli að gera alt, sem nefndin vill gera láta. (Forsrh. SE: Jeg sje ekki betur en þetta horfi við á hinn veginn, að nefndin hafi í öllu fallist á gerðir og fyrirætlanir stjórnarinnar í þessu efni).

Að því er snertir aths. í nál. til hæstv. forsrh. (SE) viðvíkjandi sendiherranum, þá ber ekki að skilja þær svo, að jeg hafi verið að kvarta yfir því, hvað rjett væri og órjett í því efni, að hækka laun hans, heldur var jeg að benda hæstv. stjórn á það, að þegar svo stendur á, að hún á kost á að bera slík mál undir þingið, þá beri henni að gera það. Áttu þau orð mín að skiljast sem bending fyrir framtíðina.

Hæstv. fjrh. (MagnJ) virtist taka vel í að bera fram frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1923, það er að segja, ef nokkurt efni fyndist í slík lög. Jeg veit nú ekki, hvað hæstv. stjórn gerir miklar kröfur eða er efnisvönd, því lengi má segja það álitamál, hver mál sjeu svo stór, að þau eigi heima í fjárlögum eða fjáraukalögum. Jeg spurði hæstv. fjrh. (MagnJ) áðan. hvort ekki hefðu nú á þessu ári átt sjer stað neinar útborganir úr ríkissjóði, sem ekki hefðu staðið í fjárlögum eða fjáraukalögum. Jeg átti þar ekki einasta við stórfjárhæðir. Því það er aðferðin, sem mest leikur hjer á, en ekki hitt, hvort um er að ræða stærri eða smærri upphæðir. „Á mjóum þvengjum læra hundarnir að stela?. Það, sem fyrir mjer vakir, er að taka af skarið í byrjun, svo að enginn slíkur ósiður komist inn í þingið, sem sje sá, að fjárráðin sjeu að meira eða minna leyti dregin úr höndum þess. Það gladdi mig því að heyra hæstv. atvrh. (KIJ) lýsa yfir því áðan, að hann bæri mikla virðingu fyrir fjárveitingavaldi þingsins. Jeg kem seinna að því að benda hæstv. stjórn á, að nú liggja fyrir stórfjárupphæðir, sem óhjákvæmilegt verður að taka upp í næstu fjáraukalög.

Mjer þykir leiðinlegt, að hæstv. atvrh. (KIJ) er ekki við, því nú verð jeg að víkja að honum. Hann sagði áðan, að hann væri mótfallinn því, að fjáraukalagafrv. fyrir yfirstandandi ár væri lagt fyrir þingið, af ótta við, að það kynni að hlaðast of mjög á það. Jeg get ekki sjeð, að það sje fremur ástæða til að vantreysta þinginu í þessum efnum en stjórninni, nema síður sje. Jeg verð að segja, að það er dálítið hart að heyra slíka vantraustsyfirlýsingu til þingsins af vörum hæstv. stjórnar, og jeg þykist þess viss, að ástæðulaust reynist að gera því slíkar getsakir, að ekki sje vogandi að hleypa í hendur því einu frv. til fjáraukalaga. Að minsta kosti á jeg bágt með að trúa, að Alþingi taki hjer undir með hæstv. stjórn og gefi sjálfu sjer þá vantraustsyfirlýsingu.

Þá mintist hæstv. atvrh. (KIJ) á frjettastofu verslunarráðsins og gat þess um leið, hve mikilvirkur sendiherra vor í Danmörku væri, og ber enginn brigður á það. Jeg vil í því efni benda hæstv. stjórn á, að það þarf fleira að gera en að taka á móti skýrslum frá honum. Það er aðeins önnur hliðin, sú sem veit út á við. Sú hliðin, sem veit inn á við, og er ekki þýðingarminni, er að sjá um, að sendiherrann hafi jafnan nægar og nákvæmar skýrslur um það, hvað gerist hjer heima. Það er alveg nauðsynlegt fyrir markað á afurðum landsins. Það var þetta atriði, sem nefndin átti við með aths. sinni í nál.

Jeg þykist vita, að hæstv. atvrh. (KIJ) hafi ekki skilið ummæli nefndarinnar um jarðabæturnar á Mosfelli, og skal jeg því skýra þau nokkru nánar. Það var ekki svo, að nefndin væri á móti því, að landið sje ræktað. Hitt er ástæðan, að ýmsir fjvn,- menn hafa litla trú á þessum nýbýlatilraunum. Það er og ekki að ástæðulausu, þótt varað sje við því í nál., að stjórnin sje að gera slíkar tilraunir, þar sem þingið hefir oft rekið sig á, að sje byrjað á slíku í einum staðnum, þá koma aðrir á eftir og vilja láta gera svipaðar tilraunir hjá sjer, og það jafnvel áður en nokkur niðurstaða er orðin af því, sem þegar er gert.

Þá kem jeg að brimbrjótsmálinu. Þrátt fyrir upplýsingar hæstv. atvrh. (KIJ) hefir ekkert komið fram í því máli, sem hafi getað sannfært nefndina, að nauðsynlegt hafi verið að veita fje til þessa. Þótt það hafi verið látið í veðri vaka, að verkinu, sem þegar væri komið í garðinn, væri hætta búin, ef það væri ekki fullkomnað, þá hefir nú reynslan sannað hið gagnstæða. Þetta hefir aðeins orðið til þess að koma tugum þúsunda í sjóinn, og er auðsætt, að verja mætti viðbótarfjárveitingum á hagfeldari hátt. Það er því alls ekki að kynja, þótt þinginu þyki sárt með köflum að sjá fje ríkissjóðsins fara á þessa leið ár eftir ár. Það hefir farið svo, og það undarlega oft, að fje, sem verja hefir átt til lendingarbóta, hefir farið algerlega til ónýtis, — og betur, að ekki megi segja það sama um ýmsar framkvæmdir á landi. Jeg skal þó taka það fram, að úr því, sem komið er, verður varla komist hjá, að stjórn og þing veiti fje til að bæta þann skaða, sem varð á garðinum í haust. Er sú upphæð átætluð 20 þúsund krónur, og hlyti hún þá að koma á fjáraukalög á þessu ári.

Hæstv. atvrh. (KIJ) komst svo að orði um þá liði, sem feldir hafa verið niður af nefndinni, eins og hann hafi skilið hana svo, að hún hefði í hyggju að taka þá upp síðar eða láta þá koma fram á öðrum stöðum. Afstöðu nefndarinnar til þeirra ber að skilja svo, að hún hafi ekki tekið neina fullnaðarályktun um þá. Eru engar meiri líkur til, að nefndin láti sig þá liði nokkru skifta í framtíðinni. en athuga mun hún þá síðar.

Þetta er nú það helsta, sem jeg þurfti að segja við hæstv. stjórn, og vil jeg nú beina nokkrum orðum til þeirra hv. þm., sem til máls hafa tekið.

Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) kvaðst því mótfallinn, að kostnaðinum við kirkjugarðsaukann væri náð upp með því að hækka legkaupið. Kvað hann ríkinu vera skylt að sjá um þetta. Það getur vel verið, að rjett sje, að það sjái um þjóðkirkjusöfnuðinn, en skylda þess nær heldur ekki lengra.

En svo veit jeg ekki betur en að aðrar sveitir og kaupstaðir landsins verði að taka slíkan kostnað á sínar herðar, og finst mjer ekkert samræmi brotið, þó að Reykvíkingar láti líka eitthvað af mörkum til síns kirkjugarðs.

Háttv. þm. Barð. (HK) þarf jeg ekki að svara. Jeg býst við, að hann þekki fjvn. svo vel, að hann hafi ekki gert sjer neinar tálvonir um, að hún hafi snúist við ræðu hans, þótt sköruleg væri. Það er þyngra en svo að sækja í hendur hennar.

Háttv. 1. þm. Skagf. (MG) var að bera blak af fyrverandi stjórn, og var það alls óþarft, er jeg hafði ekki neitt sjerstaklega sveigt að henni. Jeg átti við þær syndir, að þegar slík frv. sem þetta kemur fram svona seint, eiga báðar stjórnir að vera sömu sök seldar. (MG: Átti þá fyrverandi stjórn að bera fram fjáraukalagafrv. vegna þeirra örfáu upphæða, sem hún þá gat vitað um?). Mjer var ekki verið að tala um neinar sjerstakar upphæðir, stórar eða smáar. Nei, það var formið yfir höfuð eða meginreglan, sem um er að ræða.

Viðvíkjandi lækninum vestra er það að segja, að heilbrigðisstjórnin þóttist ekki vita eða vissi eigi annað en hún hefði vísan mann í staðinn meðan læknirinn væri utan, þótt svona færi nú. En það er gleðilegt að heyra af ræðu háttv. þm. Barð. (HK), hversu mikill missir þeim hefir verið að lækninum, og gott að fá slíka traustsyfirlýsingu til læknisins úr þessari átt.