07.04.1923
Neðri deild: 36. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

1. mál, fjárlög 1924

Magnús Guðmundsson:

Jeg get verið mjög stuttorður. Jeg spurði hæstv. atvrh. (KIJ) þess. hver nauðsyn hefði verið á því að gefa eftir uppboðsskuldina frá Viðey, 10 þúsund krónur, og sagði hann það hafa verið sömu nauðsyn og hjá mjer hefði verið fyrir umframgreiðslum 1920 og 1921. Það er nú hvorttveggja, að jeg ber ekki einn ábyrgð á slíkum umframgreiðslum; þar voru fleiri að verki, en svo þakka jeg honum fyrir það, að hann þykist kominn í gott vígi, þegar hann heldur, að hann sje eins og jeg. En jeg veit ekki til þess, að jeg hafi samþykt neinar slíkar eftirgjafir, og þess vegna er þetta alls ekki sambærilegt, og því þarf hæstv. ráðherra að skygnast um eftir nýrri heimild.

Hæstv. ráðherra (KIJ) talaði einnig um Þorlákshafnarsímann og sagði, að engin heimild hefði verið fyrir honum, frekar en Staðarfellssímanum, sem jeg talaði um, að stjórnin hefði nú lagt án heimildar. En þetta er rangt, því um Þorlákshafnarsímann eru til lagaákvæði frá 28. nóv. 1919, og því var hann lagður í fullri heimild. En það, sem jeg var að átelja um Staðarfellssímann, var það, að hann var lagður án heimildar, en þar símalínur látnar bíða, sem lagaheimild var fyrir. Hjer er því farið á snið við gildandi lög.

Um Álafossmálið, sem einn háttv. þm. mintist á, skal jeg geta þess, að þar var ekki um neina ábyrgð að ræða, heldur vel trygt lán, og mun Íslandsbanki nú ætla að taka stofnunina á sínar herðar.

Út af því, sem hæstv. fjrh. (MagnJ ) sagði um húsaleigumál sitt, að hann mundi halda áfram að hirða leiguna, þá á jeg bágt með að trúa því, eftir þær undirtektir, sem þetta hefir fengið hjer, og jeg trúi ekki fyr en jeg tek á, að hann sje svo djarfur að gera þetta.