10.04.1923
Neðri deild: 38. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (668)

1. mál, fjárlög 1924

Magnús Guðmundsson:

Jeg ætla aðeins að segja örfá orð út af skrifstofukostnaði sýslumanna. Jeg er á sama máli og nefndin, að lækkunin sje of lítil hjá stjórninni. Ef þessi lækkun, sem er 10%, er borin saman við það, að dýrtíðaruppbótin hefir lækkað um 30%, þá sjest, að lækkun skrifstofukostnaðarins er of lítil. Jeg skal viðurkenna það, að jeg álít ekki, að þessi hlutföll eigi að vera alveg jöfn, en svipuð ættu þau að geta verið. Hæstv. forsrh. (SE) skýrði frá því, hvernig hann skildi ákvæði launalaganna um þetta efni, en jeg skil þau dálítið á annan veg. Jeg lít svo á, að sýslumenn eigi ekki að fá endurgreiddan kostnað af því skrifstofuherbergi, er þeir nota sjálfir. Svo er það um aðra embættismenn. Þeir fá ekki borgun fyrir það herbergi, sem þeir þurfa til starfa sinna. Sem dæmi má nefna presta, prófessora o. fl. Þeir þurfa að hafa herbergi fyrir sig, skrifstofu, en fá að sjálfsögðu ekkert skrifstofufje. Það er fyrst, ef sýslumenn þurfa að hafa fleiri herbergi en eitt, að þeir geta gert kröfu til þess að fá kostnaðinn endurgreiddan. En þessi liður, húsaleiga, ljós og hiti, veldur oft miklu, því að menn hafa tilhneigingu til þess að reikna þetta nokkuð hátt. Jeg segi ekki, að það eigi sjer stað alment, en víða mun þó pottur brotinn í því efni.

Þá held jeg, að of mikið sje gert úr kostnaði við þingaferðir. Jeg veit það, að þegar jeg var sýslumaður, þá kostuðu þær mig mjög lítið. Jeg geri ráð fyrir því, að sýslumenn sjeu yfirleitt hagsýnir menn, er viðhafi allan þann sparnað, sem auðið er. Og þá geri jeg ráð fyrir, að þeir haldi hesta sjálfir. Jeg veit það af reynslu, að það borgar sig, því að leiga fyrir hestana í ferðum, sem sýslumenn fá ferðakostnað í, borgar fóður hestanna, svo að það þarf ekki að reikna hestaleigu í þingaferðum, ef sýslumaður á þá sjálfur. Það er satt, að sýslumenn þurfa að hafa fylgdarmann, en hins ber að gæta, að sýslumenn geta oft notað þingaferðir til annara embættiserinda.

Hæstv. forsrh. (SE) sagði, að skrifstofukostnaðurinn væri miðaður við það, sem verið hefði fyrir stríð. Þetta er ekki rjett, því að nú er hann eins hár og launin voru fyrir stríðið, og sumstaðar hærri. En það ber líka að líta á það, að tekjurnar hafa stórhækkað síðan fyrir stríð. Móti hækkaðri húsaleigu koma hækkuð laun og móti því, að nú er dýrara að halda hesta kemur það, að nú fæst meira fyrir að leigja hestana. Jeg var sýslumaður á stríðsárunum, og það lengur en hæstv. forsrh. (SE), og er þess vegna ekki alveg ókunnugur þessu máli.

Þá gat hæstv. forsrh. (SE) um það, að sýslumenn væru óánægðir. Jeg efast ekki um, að sumir þeirra sjeu það. Það eru altaf til menn, sem eru óánægðir með kjör sín.