18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (736)

1. mál, fjárlög 1924

Björn Hallsson:

Háttv. frsm. (MP) mæltist til þess áðan, að deildarmenn yrðu eins stuttorðir og unt væri, til þess að hægt yrði að ljúka umr. í kvöld, og skal jeg verða við því og ekki lengja þær mikið.

Jeg er þakklátur háttv. fjvn. fyrir undirtektir hennar við 2. brtt. mína á þskj. 369. Þarf jeg ekki að fjölyrða um þann lið, en get vísað til þess, sem jeg sagði um hann við 2. umr. Treysti jeg hv. deild til að sýna alla sanngirni í þessu máli.

Við þm. N.-M. höfum ekki að jafnaði flutt stórvægilegar brtt. við fjárlögin nje aukið gjaldahlið þeirra að nokkrum mun fyrir kjördæmi okkar. Jeg býst því við, að háttv. deild þyki mjer kveða við nokkuð annan tón hjá okkur, er hún hefir sjeð brtt. okkar á þskj. 379. Þeim fylgir þó talsverður kostnaður fyrir ríkissjóðinn. Jeg býst þó tæplega við, að við hefðum farið af stað með þessa síma, vegna fjárskortsins, ef ekki hefðu jafnmargir símar komist að við 2. umr. og raun er á orðin. Gerir þá minst til, hvort þeir eru hótinu fleiri eða færri, fyrst þeir geta hvort eð er ekki orðið lagðir nema fje sje fyrir hendi.

Landssímastjórinn hefir gert þessa áætlun, sem við ákveðum liðinn með. Sagði hann, að hún væri ríflega áætluð, en auk þessara upphæða er svo flutningurinn frá sjó á línurnar. Búist er við, að hlutaðeigendur muni leggja hann fram. Hafa þeir boðist til að taka mikinn þátt í flutningi efnisins á línurnar.

Hvað snertir þá seinni, þá skal jeg geta þess, að okkur flm. bárust sterkar áskoranir frá sjúkrahússtjórninni á Brekku um það, að við reyndum að fá því framgengt hjer á þinginu, að þessi sími yrði lagður þetta ár. Við sáum okkur þó ekki fært að ganga svo langt að fara fram á það, sökum fjárkreppunnar, en tókum það ráð að reyna að fá fjárveiting til þessa síma inn í fjáröflun 1924. Stjórnin hefir áður lýst því yfir, að engir símar verði lagðir í ár.

Jeg þarf varla að taka það fram, að sími til Brekku er mjög nauðsynlegur, ekki síst skoðað frá heilbrigðissjónarmiði. Eins og kunnugt er, er læknissetrið Brekka í Fljótsdalslæknishjeraði, og er þar sjúkrahús, sem alt Fljótsdalshjerað hefir til afnota og viðhalds. Er Brekka efst í hjeraðinu, og því langt þaðan niður að sjó (Hjeraðsflóa). Hins vegar er að kalla má læknislaust í Hróarstunguhjeraði, af því að læknirinn, sem á að þjóna því, er búsettur í Borgarfirði. Verða þeir menn, sem búa á þessu svæði, oftast að leita læknis til Brekku, norður til Vopnafjarðar eða þá í Borgarfjörð, þeir, sem næstir eru. Hefði því mikla þýðingu fyrir þessa hjeraðsbúa að hafa aðgang að síma. T. d. hefir það oft komið að góðu haldi að tala við Vopnafjarðarlækni, og hefir hann þá jafnan komið á móti þeim, sem hafa sótt hann. Sama máli væri að gegna, ef sími kæmi frá Egilsstöðum að Brekku. Auk þess lægi þessi sími um fjölment hjerað, sem hefði hin mestu þægindi af honum. Lægi hann meðal annars um Hallormsstað, en þangað er nú allmikill ferðamannastraumur, einkum á sumrin. Er því engin hætta á öðru en síminn yrði mikið notaður. Um Loðmundarfjarðarsímann er það að segja, að hann er auðvitað líka nauðsynlegur. Þessi fjörður er nú alveg einangraður; er hann einn símalaus af nærliggjandi fjörðum. Íbúar hans verða að sækja lækni til Seyðisfjarðar, og prestur þeirra er líka búsettur þar. Og einnig reka þeir þar verslun sína eingöngu Það væri því nauðsyn fyrir þá að fá þennan síma.

Um styrkinn til Guðmundar pósts Kristjánssonar þarf jeg ekki að fjölyrða. Eins og kunnugt er, hefir Alþingi oft veitt póstum lítilsháttar ellistyrk, og er þessi tillaga um 200 kr. til þessa manns í samræmi við þá venju.

Þessi maður hefir verið póstur milli Vopnafjarðar og Þistilfjarðar í samfleytt 20 ár, en verður nú að leggja niður starfið sökum vanheilsu. Hann hefir þótt mjög duglegur póstur og árvakur í þeirri stöðu. Hefi jeg fengið brjef um það frá ekki ómerkari manni en Einari prófasti Jónssyni á Hofi, og staðfestir það þetta. (MP: Jeg gleymdi að geta þess í framsöguræðu minni, að fjvn. er meðmælt þessum styrk). Jeg er háttv. fjvn. þakklátur fyrir það, og þarf jeg þá væntanlega ekki að fjölyrða meira um jafnsanngjarna till. Samt vil jeg geta þess til árjettingar, að maður þessi tapaði heilsunni í póstferð 1914 í aftakaveðri, en náði henni nokkuð aftur eftir 2 ár. Var hann þá í póstferðum aftur 1916–19, en þá misti hann heilsuna að fullu í páskaveðrinu illræmda, sem geysaði þá um alt Austurland í fleiri daga. Hefir hann aldrei borið sitt bar eftir þá hrakninga, sem hann varð þá fyrir. Maðurinn er efnalaus og ástæður hans allar slæmar. Auk þess ber þess að gæta, að póstar eru yfirleitt illa launaðir, en ilt starf og hættulegt að vera póstur hjer á landi, einkurn í stórhríðum á vetrum. Hv. samþm. minn (ÞorstJ) hefir talað um styrkinn til Víglundar Helgasonar, og ætla jeg ekki að fjölyrða um hann, en mæli aðeins eindregið með honum.

Fer jeg svo ekki fleiri orðum um þetta, enda mun nú hv. deildarmönnum mál að taka til máls, svo margir sem nú hafa talað jafnframt mjer. Verð jeg annars að kalla þennan margraddaða klið í deildinni slæma þingreglu.