18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í B-deild Alþingistíðinda. (747)

1. mál, fjárlög 1924

Þorleifur Jónsson:

Jeg á litla brtt. á þskj. 385, sem jeg vildi fara um nokkrum orðum.

Það hefir verið farið fram á það á þingmálafundum í Austur-Skaftafellssýslu, bæði nú og áður, að símalínan yrði lengd vestur á bóginn. Hún nær nú í Hornafjörð, en í símalögunum er ákveðið, að hún skuli ná til Víkur í Mýrdal.

Nú hefir orðið frestur á þessu sökum fjárhagsvandræða, en nú þykir tími til kominn að fara að hugsa fyrir því að leggja þessa línu, þar sem sveitin er mjög illa stödd með það að vera alveg símalaus.

Jeg átti tal um þetta við landssímastjóra og spurði hann um, hvað símalínan frá Hornafirði til Kálfafellsstaðar mundi kosta. Áætlaði hann kostnaðinn um 20000 kr., auk kostnaðar við flutning á efni, sem hlutaðeigendur munu kosta sjálfir.

Virtist hann meðmæltur því, að byrjað yrði á línunni. Þegar símamálin voru til umræðu í fjvn., þóttist nefndin ekki geta gengið lengra en mæla með nokkrum símalínum, sem stjórnin og landssímastjóri töldu mesta nauðsyn bera til að vinda bráðan bug að. Vildi jeg ekki gera þetta að ágreiningsefni í nefndinni og bjóst við, að hv. þm. mundu láta sjer nægja þessar till. fjvn. En þegar einstakir þingmenn hafa komið fram með brtt. um símalagningar í sínum hjeruðum, þá get jeg ekki lengur setið hjá. Hefi jeg því komið fram með þessa till. um síma frá Hornafirði til Kálfafellsstaðar. Er hjer varlega farið, því spölur þessi er aðeins lítill hluti af allri þeirri leið, sem ákveðið er, að sími liggi, eftir símalögunum. Er og þess að gæta, að hjer er um fyrsta flokks síma að ræða, sem heimild er til eftir þessum sömu lögum að taka lán til að leggja.

Er hjeraðsbúum hin mesta nauðsyn á að fá símalínuna lengda vestur á bóginn. Hafa þeir verslun sína alla í Hornafirði, og þar situr læknirinn. Samgöngur eru þarna líka mjög erfiðar. Mælir því öll sanngirni með þessu.

Jeg játa það, að verði allir þessir símar lagðir, þá hefir það 300000 kr. gjaldaaukningu í för með sjer, en þess er að gæta, að sú aths. fylgir, að símar þessir verði ekki lagðir nema fje sje fyrir hendi, og því virðist þetta hættulaust. En jeg vildi koma fram með þessa till. einkanlega af því, að jeg vildi minna landssímastjóra, þing og stjórn á það, að þessi sími á ekki minni rjett á sjer, heldur meiri en hinir símarnir. Jeg heyrði á hæstv. atvinnumálaráðherra, að honum óaði svo við öllum þessum símabeiðnum, að hann taldi líklegast, að stjórnin mundi hika við að leggja nokkra þeirra. Jeg skal taka það fram, að jeg vil ekki bregða fæti fyrir, að byrjað sje fyrst á þeim símum, er stjórnin og landssímastjóri teldu bráðnauðsynlegasta. Jeg vildi aðeins minna á þann rjett, sem þessar sveitir hafa á því að fá síma.