18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

1. mál, fjárlög 1924

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg skal byrja á því að taka undir þau orð, er hv. 2. þm. Skagf. (JS) vjek til samgmn. Áður hefir oftast verið venja, þegar samgöngumálanefnd hefir samið áætlun um skipaferðir, að tillögur hennar hafa gengið á milli, þingmanna, áður en þær hafa verið sendar sem fullnaðarályktun frá nefndinni. Það hefði verið viðkunnanlegra, ef háttv. samgmn. hefði sýnt þeim landshlutum, er eiga enga fulltrúa í nefndinni, þá kurteisi að lofa þingmönnum þeirra að sjá tillögur hennar.

Jeg skal geta þess, að um styrkhækkunina til Þjóðvinafjelagsins, er hv. 1. þm. N.-M. (ÞorstJ) mælti með, hafa nefndarmenn óbundnar hendur.

Hv. 2. þm. N.-M. (BH) talaði um símana, eins og fleiri. Sagði hann, að sjer mundi ekki hafa komið til hugar að bera fram tillögu um símalagningu, ef fleiri tillögur hefðu ekki komið fram. En það er einmitt það leiðinlega, að ef menn sjá tillögur um einhverjar framkvæmdir í hjeruðum annara þingmanna, þurfa þeir endilega að koma með tillögur um samskonar verk í sínu hjeraði. Eins og jeg tók fram í fyrri ræðu minni, kom fjvn. ekki til hugar að gera upp á milli þessara símalína og áleit, að þær yrðu að bíða betri tíma. Enda hafa allir viðurkent, að þær línur, er nefndin hafði tekið upp í tillögur sínar, ættu þó að ganga fyrir. Það er enginn vafi á því, að ef deildin vildi samþykkja að bæta þessum símalínum við, mundi sami leikurinn halda áfram, þangað til frv. er komið í gegnum þingið; það mundu eflaust koma svipaðar brtt. í hv. Ed., með sömu ummælum og sama formála.

Jeg skal benda hv. þm. Barð. (HK) á það, svo að hann viti hug fjvn., að hún getur ekki mælt með þeim styrk, er hann fer fram á. Það væri ekki sambærilegt við það, sem áður hefir verið gert, og þær yrðu margar hreppstjóraekkjurnar, sem mundu sækja um styrk, ef sá siður yrði tekinn upp að veita sumum þeirra eftirlaun.

Þá töluðu þeir hv. 1. þm. Reykv. (JakM) og hæstv. atvrh. (KIJ) um tillöguna um launauppbót til starfsmanna landssímans. Hafi háttv. 1. þm. Reykv. (JakM) skilið orð mín í dag svo, að nefndin hafi ekki tekið ákveðna afstöðu til þessarar tillögu, þá hefi jeg ekki hagað orðum mínum eins og jeg vildi gert hafa. Jeg lýsti yfir því, að nefndin legði á móti tillögunni, og sjerstaklega fyrir þá sök, að hún var ekki eingöngu bundin við uppbót til símameyjanna við bæjarsímann í Reykjavík. Jeg skal geta þess, í tilefni af orðum hæstv. atvrh. (KIJ), að þetta er stefnumál fyrir nefndinni, eins og hæstv. atvrh. (KIJ) er kunnugt. Hjer er að ræða um breytingu á launum starfsmanna ríkisins, er taka laun eftir launalögunum. Telur nefndin ekki rjett að taka smáhópa út úr heildinni og hækka laun þeirra með sjerstakri veitingu í fjárlögum, heldur eigi þá að breyta launalögunum. Nefndin benti hæstv. stjórn á, hvaða leið hún teldi rjettasta, og hvatti hana að bera fram frv. um breytingar á launalögunum í þessa átt.

Mig furðar á því, að hæstv. atvinnumálaráðherra (KIJ) kveðst ætla að bera fram brtt. við fjáraukalögin um líka uppbót, í stað þess að gera það formlega með breytingu á launalögunum.

Um brtt. háttv. 1. þm. Reykv. (JakM), um styrk til prestsekkju einnar, hefir fjvn. ekki getað borið sig saman. En þó að engin ákvörðun hafi verið tekin í nefndinni, þar sem hana vantaði allar upplýsingar, býst jeg við, að nefndarmenn muni yfirleitt hlyntir þessum styrk, eftir þeirri skýrslu, er háttv. þm. hefir gefið.

Hæstv. atvrh. (KIJ) og sjerstaklega hv. 2. þm. Skagf. (JS), er ber fram brtt. við þennan lið, hafa nokkuð fett fingur út í tillögu meiri hl. fjvn. um uppbótina til A. L. Petersens. Háttv. 2. þm. Skagf. (JS) komst vel að orði um þessi skjöl, er liggja fyrir frá rannsóknarnefndinni, að það væri rjettast að kalla þau ekki tillögur.

Er líkast því, sem rannsóknarnefndin vilji ekki bera fram neinar ákveðnar tillögur.

Býst jeg við, að mörgum, er lesið hafa þessa rannsóknarskýrslu, finnist, að hjer sje fremur um varnarskjal fyrir landssímastjóra að ræða en hlutlaust álit.

Í raun rjettri er því enn ekkert verulegt við að styðjast í máli þessu, nema skýrsla Petersens sjálfs, sem sýnist rjett útreiknuð. Fara till. fjvn. nær kröfu hans, sem var 17000 kr., heldur en brtt. þeirra hv. 2. þm. Húnv. og háttv. 2. þm. Skagf.

Þess er og að gæta, að Petersen sýnist hafa fengið loforð, bæði hjá landssímastjóra og stjórninni. um það að fá lífvænlega stöðu, bæði fyrir sig og konu sína. (MG: Hann hefir stöðu hjá ríkinu). Það er ekki lífvænleg staða, og því síður föst til frambúðar. Fjvn. hefir því tekið þann kostinn að leggja til að manninum verði veitt ákveðin fjárhæð í eitt skifti fyrir öll, en að slept sje þeirri skyldu, að stjórnin sjái honum fyrir stöðu. Teljum við þetta hreinlegra og báðum aðiljum betra, eins og komið er. Hefir fjvn. þótt rjett að höggva nú loks á þennan hnút, sem lengi hefir verið óleystur, og höfum við mikil líkindi og nær því vissu fyrir, að ef manninum verði veitt þetta, þá sje þessu máli þar með lokið, og hefir þá Alþingi skilist vansalaust við það.

Jeg skal ekki tefja tímann með því að svara hæstv. atvinnumálaráðherra viðvíkjandi heimildinni til að veita Eimskipafjelaginu styrk. Hann mun geta lesið það, sem jeg sagði um þetta í dag, í þingtíðindunum, og það mun nægja.

Jeg skal heldur ekki andmæla háttv. 2. þm. Árn. (ÞorlG). Jeg býst við því, að hann hafi hrært hugi einhverra háttv. þm. með hinni hjartnæmu ræðu sinni um styrkinn til Skeiðaáveitunnar, en fjvn. er vissulega svo forhert, að áhrifanna mun ekkert gæta á hana. Hún vill aðeins veita þessa lánsupphæð, en engan beinan styrk að sinni.

Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) þarf jeg engu að svara fyrir hönd nefndarinnar, en get þess aðeins, að nefndin er enn einhuga um það að vera á móti ullarverksmiðju hans.

Þessi sami háttv. þingmaður talaði um það, að nefndin hefði flutt Dansk Kunstflidsforening vestur í Dalasýslu. — Á hann þar víst við hannyrðakenslustyrkinn til Þórdísar Ólafsdóttur á Fellsenda. En jeg hjelt, að háttv. þm. væri svo vel að sjer í þessum sökum, að hann vissi, að fleiri geta kent hannyrðir en þetta fjelag. Held jeg, að nefndinni sje ekki láandi, eftir því sem henni fórust orð við 2. umr. fjárlagafrv., þótt hún vilji styðja að þessu.

Það var von, að háttv. þm. furðaði á því, að jeg skyldi ekki geta um till. hans, sem hann tók aftur við 2. umr., um aukinn styrk til berklavarna.

Jeg gleymdi að geta um hana. En nefndin hefir alt að einu athugað þetta, en hafði ekki við svo mikil gögn að styðjast, að hún treystist til að koma fram með brtt. En það þykist nefndin vita, að þetta fje, sem áætlað er, muni ekki nægja; en þó er hjer aðgætandi, að margir þeir, er áður nutu styrks samkv. 77. og 78. gr. fátækralaganna, komast nú undir berklavarnalögin, og við það minka mjög þau útgjöld, sem áður fjellu undir þessar greinar.

Háttv. 1. þm. G.-K. (EÞ) get jeg sagt það sama og háttv. 1. þm. Reykv. (JakM), að jeg býst við því, að nefndin sje sammála brtt. hans.

Ekki vil jeg andmæla háttv. form. fjvn. (ÞorlJ), enda fór hann hóglega í sakirnar. Vil jeg undirstrika síðustu orð hans, um það, að rjettmætt sje að bera fram till., til þess að minna á, að sími þessi er forgangssími samkvæmt símalögunum.

En annars vil jeg skjóta því til háttv. þm., hvort þeir vilji nú ekki allir taka þessar símatill. sínar aftur, úr því að bent hefir verið á, að þeir eigi allir að koma í náinni framtíð.

Háttv. þm. Ísaf. (JAJ) gat þess út af styrknum til alþýðuskólans í Þingeyjarsýslu, að engin teikning eða kostnaðaráætlun um hann lægi fyrir frá sjerfróðum manni. Jeg gat um það í dag, að nú hefði nefndin haft með höndum uppdrætti og áætlun frá byggingarfróðum manni. Þessi ástæða háttv. þm. er því úr sögunni, og ætti hann nú helst að taka brtt. sína aftur, þar sem þetta mun aðallega hafa valdið því, að hún kom fram.

Háttv. 1. þm. Árn. (EE) ljet það á sjer skiljast, að deildin hefði veitt einum manni eftirlaun fyrir dýralækningar. Jeg hjó eftir þessu hjá honum og vil ekki láta þetta standa ómótmælt í þingtíðindinum, því að þetta er ekki rjett. Þessi upphæð er veitt í viðurkenningarskyni, eitt skifti fyrir öll, enda stendur hún á alt öðrum stað í fjárlögunum en eftirlaun standa. Um þá till. háttv. þm. (EE) að veita þessari gömlu ljósmóður eftirlaun, þarf jeg ekki margt að segja umfram það, sem jeg hefi áður sagt. Nefndin vill ekki, að gefið sje fordæmi fyrir því, að allar ljósmæður landsins komist á eftirlaun. Háttv. þm. vildi setja þetta í samband við einhver hreppstjóraeftirlaun, en þau hafa ekki verið veitt, þótt tilraunir hafi verið gerðar til þess að fá þau.

Háttv. 2. þm. Skagf. varð til þess að mótmæla till. meiri hl. sjútvn., er meiri hl. fjvn. styður. Sagði hann, að hjer væri um nýtt embætti að ræða. Það er rjett; en það er persónulegt embætti, bundið við þennan mann.

Hann kallaði þetta vísindalegt fiskiráðunautsembætti, og jeg hefi ekkert á móti því nafni og get ekki sjeð, að það sjeu nein mótmæli gegn því. Er ekki óeðlilegt, að jafnmikil fiskiþjóð sem Íslendingar eru, hafi 1 fiskiráðunaut; að minsta kosti er það ekki mikið, þegar litið er til allra ráðunautanna, sem Búnaðarfjelag Íslands hefir í sinni þjónustu. Er langt frá því, að við sjeum í samræmi við aðrar þjóðir í þessu efni, þótt við höfum þennan eina mann í þjónustu ríkisins til þess að vinna að þessu.

Þá sagði hann, að hann hefði ekki fundið, að maður þessi hefði gert eða ætti að gera nokkurt praktiskt gagn. Hann varð nú sjálfur til þess að nefna ýmislegt praktiskt, er þessi maður hefði fengist við á þessu sviði. Hygg jeg, að fáum blandist hugur um, að það sje ærið þýðingarmikið og hafi praktiska þýðingu að vita um fiskigöngur og hrygningarsvæði. Þessi maður á líka upptökin að því, að byrjað var að veiða síld með reknótum. Og margt fleira mætti telja. Það má vel vera, að rjettara væri að leggja þetta undir Fiskifjelagið; má vera að það verði síðar gert, ef starf þetta heldur áfram eftir að þessi maður hefir látið af því.

En þetta þótti rjettara nú, sökum þess, að embættið er bundið við nafn þessa manns.

Annars þarf ekki að fjölyrða um, hve sjálfsagt það er að gera þetta. Þessi maður hefir þegar unnið svo mikið á þessu sviði, að það eitt var nægilegt til að veita honum þetta. En auk þess má mikils af honum vænta í framtíðinni.

Ekki má það heldur vera nein grýla á háttv. þm., að ekki fáist neinn hæfur maður til að gegna kennarastarfi hans við mentaskólann. Er enginn vafi á því, að til eru margir, sem það geta, og mætti nefna nöfn, ef þess væri þörf. Kemur og einhvern tíma að því, að hann verði að láta af þessu embætti.

Þá skaut þessi háttv. þm. (JS) þvi til mín, að háttv. þm. Dala. (BJ) hefði sagt, að upphæð sú, er heimilað er að veita námsmönnum lán af, væri áætlunarupphæð.

Þetta kemur mjer eða nefndinni ekkert við. Hún hefir ekkert álit látið uppi um þetta eða gefið neinar skýringar á því. Einungis hefir hún sagt, að styrkbeiðnir gætu fallið hjer undir. En hitt hefir hún aldrei rætt, hvort þetta skyldi teljast áætlunarupphæð eða ekki; en jeg veit, að sumir háttv. nefndarmanna munu ekki ætlast til, að þetta sje áætlunarupphæð.

Svo skal jeg láta mínu máli lokið.