18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

1. mál, fjárlög 1924

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg þarf aðeins að gera örlitla athugasemd við það, sem háttv. 2. þm. Húnv. (ÞórJ) sagði um Petersensmálið. Reyndar væri hægt að halda 1–2 tíma ræðu um málið, en jeg vil aðeins geta þess, að með þessari till. nefndarinnar er heillavænlegur heppilegur endi bundinn á málið. Og viðvíkjandi því, sem háttv. 2. þm. Skagf. (JS) sagði um það, hvaða tryggingar væru fyrir því, að málið fjelli þá niður, skal jeg segja það eitt, að jeg hefi mjög miklar líkur fyrir því, að svo verði, og í rauninni meira en líkur, en þess er þó ekki að vænta, ef aðeins verður samþykt tillaga minni hlutans.

Út af því, sem sagt var um fjárveitinganefndina og samgöngumálin á sjó, þarf jeg ekki að segja annað en það, að það hefir altaf verið siður, að slík mál væru tekin til meðferðar þar á þann hátt, sem nú var gert, þangað til að minsta kosti að með nýju þingsköpunum var sett á stofn samgöngumálanefnd, sem jeg tel annars alveg óþarfa.