03.05.1923
Efri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

1. mál, fjárlög 1924

Guðmundur Guðfinnsson:

Jeg skal leyfa mjer að minnast lítilsháttar á fáeinar brtt. Það er þá fyrst á þskj. 519. II.1, frá fjvn., um aðstoðarlækninn á Ísafirði. Jeg hefi leitað mjer upplýsinga um það, að laun hans hafa upphaflega verið miðuð við 1/2 laun hjeraðslækna. Nú munu þau ekki nema svo miklu, þar sem laun hjeraðslæknisins eru nú 2500 kr., auk dýrtíðaruppbótar. Jeg verð því ekki með brtt. fjvn., tel það ekki sæmilegt. En í frv. mun vera miðað við hjer um bil 1/2 laun, og er það rjettara.

Þá er það brtt., sem jeg á á sama þskj., 519,VI., 2500 kr. til að byggja unglingaskóla í Vík. Þessi unglingaskóli er búinn að starfa í mörg ár með ágætum kenslukröftum og hefir haft húsnæði í barnaskóla kauptúnsins; en nú hefir orðið að tvískifta börnunum í barnaskólanum, svo að unglingaskólinn fær þar ekki lengur inni, og nú verður unglingaskólinn að leggjast niður. Er hugmyndin að byggja við barnaskólahúsið. — Háttv. þm. V.-Sk. (LH) hefir gert ráð fyrir því við mig, að þessi upphæð yrði 1/3 kostnaðar, og hefi jeg flutt þessa brtt. fyrir beiðni hans, jafnframt þeirri ástæðu, að jeg tel þetta mjög nauðsynlegt.

Þá er það brtt. VIII.l, á þskj. 519, 7000 kr. lán til Holtavegarins. Hæstv. atvrh. (KIJ) hefir mælt svo vel með þessu láni, að jeg hefi þar engu við að bæta.

Þá er það 2. liður sömu brtt., 3000 kr. lán til ábúandans að Hlíðarenda, til að byggja. Jeg bar samskonar brtt. fram í fyrra, og get vísað til umsagnar minnar um hana þá. Þetta býli, sem er frægur staður, er endastöð fyrir marga ferðamenn, þá er fara inn á Þórsmörk. Umferð er mjög mikil, svo erfitt er um gistingu. Húsakynni eru lítil á Hlíðarenda; verður oft að búa um menn í lítilli stofu á flatsæng. Bóndinn á sjálfur jörðina, og myndi hann væntanlega geta veitt þá tryggingu fyrir láninu, er stjórnin tekur gilda. Jeg fór fram á styrk í fyrra, en nú lán, og vona jeg, að ríkissjóður sje eigi svo tæpt staddur, að honum sje um megn að verða við svona lítilli beiðni.

Þá hefi jeg á þskj. 335,11. farið fram á það, að Austur-Eyjafjallahreppi væru veittar 200 kr. til læknisvitjunar. Háttv. þm. Snæf. (HSt) hefir borið fram samskonar brtt., og vorum við einnig með þær við 2. umr. fjárlaganna, en þá tókum við þær aftur. Ástæðan til þess var sú, að háttv. fjvn. hafði góð orð um að athuga þær til 3. umr. ásamt fleirum styrkveitingum af sama tægi, sem þegar eru komnar inn í fjárlagafrv. Nú hefir nefndin ekki gert það, og verðum við því að líta svo á, að hún sje samþykk þessum till. okkar.

Við 2. umr. lagði háttv. fjvn. til, að fje til Sláturfjelags Suðurlands væri felt niður, vegna þess, að henni þótti málið ekki nægilega undirbúið. Nú hefi jeg ásamt 2 öðrum háttv. þm. flutt brtt. um, að þessir liðir yrðu teknir upp aftur, og er gert ráð fyrir, að það sje trygt, að nægur undirbúningur verði framkvæmdur, þar sem það er því skilyrði bundið, að „landsstjórnin hafi eftirlit með því, að fengin verði nægileg sjerfróð aðstoð við undirbúning og framkvæmd fyrirtækisins.“ Jeg vona, að allir sjái, að hjer er um nauðsynjamál að ræða, og samþykki því þessa brtt.