07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í B-deild Alþingistíðinda. (841)

1. mál, fjárlög 1924

Björn Hallsson:

Jeg stend ekki upp vegna þess, að jeg hafi neinn breytingatillögudrösul að draga. Jeg á enga brtt. nú. En háttv. fjvn. hefir lagst á móti einni fjárveitingu, sem snertir Austurland, og vil jeg fara um þann lið nokkrum orðum. Á jeg þar við styrkinn til kaupstaðabókasafna. Eins og háttv. þdm. er kunnugt, var sá styrkur hækkaður í háttv. Ed. um 1000 krónur, eða úr 3000 upp í 4000 krónur. En háttv. fjvn. Nd. leggur til, að hann verði lækkaður aftur. Var þetta gert í háttv. Ed. til þess, að hægt væri að lækka styrk til Bókasafns Austurlands, sem þessari upphæð næmi. Samkvæmt undanfarandi fjárlögum er heimilt að velja til bókasafna og lestrarsala í þorpum og bæjum alt að helmingi móti því, sem lagt er til úr sýslu-, sveitar- eða bæjarsjóðum. En í áætlun Bókasafns Austurlands fyrir 1924 er gert ráð fyrir, að úr bæjarsjóði Seyðisfjarðár og sýslusjóðum Múlasýslna sje lagt til 1850 krónur, svo að það verður talsvert fyrir ofan þá upphæð, sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður greiði, en sem er 1500 krónur.

Þetta er því engin ósanngirni, þótt farið sje fram á aukinn styrk til safnsins. Þarf ekki annað en benda háttv. deild á það, hvílíka þýðingu svona söfn hafi sem menningarmeðal. Það er því fjarri því, að þetta sje bitlingur, heldur nauðsynleg fjárveiting, til þess að efla mentun og menning á Austurlandi. Eftir áætluninni er veitt 500 krónum meira annarsstaðar frá en úr ríkissjóði, og vex hröðum skrefum seinustu ár, sem veitt er til safnsins. Svo er enn ein ástæða, sem stjórn bókasafnsins bendir á að sje sjerstaklega knýjandi, og vil jeg með leyfi hæstv. forseta, lesa upp kafla úr skýrslu bókasafnsstjórnarinnar:

„Sökum fjeleysis hefir ekki verið hægt að prenta bókaskrá fyrir safnið síðan 1913. Síðan hefir þó bæst mjög mikið við það, og þá fyrst og fremst hið ágæta safn Ásgeirs heitins Torfasonar. Óhugsandi er, að safnið geti starfað eins og fyrirhugað er, nema skráin verði samin og prentuð, enda er þegar byrjað að semja hana. En hún verður ekki samin og prentuð, nema til þess fáist sjerstakt fje, eða starfi safnsins verði að miklu skotið á frest og til skrárinnar notað það, sem annars gengur til reksturskostnaðar“. Vona jeg, að háttv. deild lofi þessu að standa, sem Ed. hefir samþykt, og felli till. háttv. fjvn. Þykir mjer þó leitt að þurfa að ganga á móti tillögu nefndarinnar, því að jeg hefi yfirleitt staðið nærri henni og fylgt till. hennar að miklu leyti, í það minsta þeim öllum, sem til sparnaðar stefna.

Þá ætla jeg aðeins að minnast á 2 eða 3 liði. Fyrst till. frá háttv. fjvn., að styrkur til Dansk-islandsk Samfund verði lækkaður niður í 300 krónur. Jeg er í raun og veru á móti þessum styrk, vildi helst fella hann alveg niður, og greiddi þannig atkvæði hjer í deildinni. En ef hann á nokkur að vera, þá er næstum hlægilegt að hafa hann ekki meira en 300 krónur, þar sem líka nýtt fjelag, sem starfar á líku sviði, hefir 1000 krónur. Það hefði þá verið betra að veita ekki neitt, eða þá eitthvað dálítið meira, t. d. 500 krónur. Auðvitað legg jeg alls ekkert kapp á þetta, en finst þetta aðeins hálfhlægilegt.

Þá er brtt. á þskj. 578,2. Er það afturganga hjer í deildinni. Er jeg hissa á því, að þetta skuli vera borið fram aftur, eftir að búið er að fella það einu sinni og sýna fram á, að til þessa læknisbústaðar er búið að veita meira en annarsstaðar er gert, þar sem Geysishúsið gekk til þessarar byggingar og var selt gjafverði, sem kunnugt er af ámælum þeim, er stjórnin hefir hlotið út af þeirri sölu. Ætla jeg að þessi kjarakaup vegi á móti nokkrum styrk, og þykir mjer nokkuð langt gengið að fara jafnframt fram á beinan styrk. Mun jeg greiða atkvæði á móti þessari till. Vitanlega eru fleiri liðir, sem jeg er á móti, því ekki er alt hægt að veita, jafnvel þótt þarft sje, t. d. til sjúkrahússbyggingar á Siglufirði 20000 krónur; enn fremur ýmsir bitlingar, sem sjálfsagt er að reyna að fella, sem eru bæði á þskj. 557 og 578. En það er ekki til neins að fjölyrða um það, heldur láta atkvæðagreiðsluna skera úr.