07.04.1923
Neðri deild: 36. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

8. mál, einkaleyfi

Frsm. (Jón Þorláksson):

Þetta frv. til laga um einkaleyfi hefir líka legið fyrir undanförnum þingum. Það kom fyrst fram á þinginu 1919, og hefir síðan legið öðruhvoru fyrir þinginu. Að málið hefir ekki enn þá hlotið afgreiðslu, virðist stafa af því, að ágreiningur hefir verið um þetta meginatriði, hvort vér erum þess umkomnir að setja hjer upp sjerstaka rannsóknarnefnd á einkaleyfum. Árið 1921 kom málið aftur inn á Alþingi og var þá ákvæðum um slíka rannsóknarnefnd bætt inn í frv. í Ed. En stjórnin gat ekki fallist á þá viðbót og lagði frv. fyrir þingið 1922 í fyrri mynd sinni. Þá komst það í gegnum efri deild, en varð aldrei útrætt í þeirri neðri. Og nú er það komið hjer enn á ný. Í nál. er gerð grein fyrir því, að allshn. geti ekki hugsað sjer, að farið verði að leggja í þann kostnað að setja hjer upp slíka rannsóknarnefnd. Hún vill leggja áherslu á það, að sneitt verði hjá slíkri nefndarskipun og þeim kostnaði, sem af henni myndi leiða. Hún lítur enn fremur svo á, að þetta mál sje ekki sjerlega þýðingarmikið, en þó telur hún rjettara að lög verði sett um það, en þá á þann hátt, að ekki hafi það í för með sjer neinn teljandi kostnað. Í frv. er að vísu ekki beinlínis farið fram á, að skipuð verði sjerstök rannsóknarnefnd í þessu skyni, en gert ráð fyrir, að ráðuneytið láti framkvæma rannsóknirnar. Nú þykir nefndinni ekki trygt, að rannsóknirnar verði í framtíðinni framkvæmdar á þann hátt, sem núverandi og fyrverandi stjórn hafa hugsað sjer þær. nema þessu sje ráðstafað með lögum. Hún vill því láta það koma fram í sjálfum lögunum, sem vakað hefir fyrir þessum stjórnum. Nefndin hugsar sjer, að venjulega verði þessu hagað þannig, að þegar sótt verður hjer um einkaleyfi, þá skuli beðið með afgreiðslu þeirrar beiðni þar til umsækjandi getur sýnt, að slíkt leyfi hafi verið veitt í einhverju ríki, þar sem einkaleyfisrannsókn fer fram. Þá fyrst getur hann fengið einkaleyfi hjer. En þegar sótt væri um einkaleyfi hjer á landi eingöngu, þá er það tilætlunin, að leitað verði til rannsóknarskrifstofunnar í Kaupmannahöfn, og hefir hún lofað því að taka að sjer rannsóknir fyrir oss gegn borgun. Það þótti okkur nefndarmönnum og rjett, til þess að gera ríkissjóði ekki kostnað með þessu, að umsækjandi greiði þann kostnað sjálfur, sem rannsóknin hefir í för með sjer. Hins vegar vill nefndin heimila ríkisstjórninni að hlaupa þar undir bagga, þegar um efnalitla menn er að ræða og ástæða þykir til að öðru leyti. Ætlast hún sjerstaklega til, að sú heimild sje notuð, er ríkisstjórninni þykir útlit fyrir, að um uppgötvun sje að ræða, sem kunni að hafa þýðingu fyrir framleiðslu landsins eða atvinnuvegi landsmanna. Öðru máli er að gegna um uppgötvanir, sem eru þess eðlis, að þær koma aðallega til framkvæmda erlendis.

Að öðru leyti þarf jeg ekki að fjölyrða neitt um brtt. á þskj. 263. Þar er að mestu leyti bara um rjetting á máli og prentun að ræða.