13.03.1924
Efri deild: 18. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1680 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

59. mál, friðun rjúpna

Einar Árnason:

Það er í sjálfu sjer tilgangslaust að vera að þrátta um þetta mál. Það, sem á milli ber, er, hvort rjúpurnar sjeu hjer margar eða fáar. Við hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) lítum hvor sinn veg á það. Hv. 2. landsk. þm. (SJ) tók það fram, að það væri lítið um rjúpu í Þingeyjarsýslu. Jeg átti tal um það við þm. S.-Þ., og hann telur ekki minna um rjúpu nú en þegar hún var flest áður. Hv. þm. A.-Húnv. henti gaman að rjúpnamergðinni í Eyjafirði; kvað liggja við, að af því stafaði hætta. Það er að vísu óþarfi að óttast það, en það er áreiðanlegt, að það þarf að vera mikið af rjúpu til þess, að hv. þm. A.-Húnv. komi auga á hana. Það er rjett, sem hv. þm. sagði, að jeg mintist ekki sjerstaklega á brtt. hv. landbn., en jeg er sammála háttv. landbn. um það, að heppilegra sje, að í staðinn fyrir 7. hvert ár komi 5. hvert ár. Þar sem jeg sagði, að till. mín væri miðlunartill, þá hafði jeg í huga till. landbn. um, að framlenging friðunartímans skyldi ná til 1926, og frv., sem gerir ráð fyrir, að hún nái til 1927. Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að ekki væri ástæða til að lina á lögum fyrir þá sök, að þau væru brotin. Það er oftast nær rjett að gera ekki slíkt, en þó ekki altaf. Ef lögin eru óskynsamleg og hætta er á því, að þau sjeu brotin af þeirri ástæðu, þá er betra að afnema þau heldur en að halda fast við þau. Jeg vildi leyfa mjer að skjóta því til hv. landbn., að mjer finst kenna nokkurs ósamræmis í milli laga um friðun rjúpna frá 1921 og laga um friðun fugla og eggja frá 1913. Sjeu þessi lög borin saman, þá verður útkoman sú, að það ár, sem rjúpan er alfriðuð, er samkvæmt lögunum frá 1913 leyfilegt að skjóta hana í 10 daga. Finst mjer rjett, að þetta sje athugað og því breytt þannig, að í stað 1. október komi 20. september.