13.03.1924
Efri deild: 18. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1681 í B-deild Alþingistíðinda. (1116)

59. mál, friðun rjúpna

Frsm. (Eggert Pálsson):

Það er aðallega formsins vegna, að jeg stend upp aftur. Hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) tók það fram, að mál þetta bæri að athuga með skynsemd og hagsýni. Þetta er rjett, og svo á að vera um hvert mál, bæði stór og smá. En hluturinn er sá, að hverjum þykir sinn fugl fagur, eins í þessum efnum sem öðrum. Landbn. þykist hafa sýnt hvorttveggja, skynsemi og hagsýni, í meðferð þessa máls, og það telur hv. þm. sig líka gera. En í raun og veru er ágreiningurinn milli landbn. og þessa hv. þm. (EÁ) ekki mikill; aðeins sá, hvort friða eigi rjúpuna einu ári lengur eða skemur, eða til 1. okt. 1925, í stað 1. okt. 1926, eins og nefndin leggur til.

Það er því einungis þetta eina ár, sem deilt er um. Hv. 1. þm. Eyf. gat þess, að lögin um friðun rjúpna væru þegar brotin, og er ilt til þess að vita, ef svo er. En úr því verður ekki bætt með því að stytta hinn framlengda friðunartíma, heldur þarf þá að afnema lögin með öllu, ef koma á alveg í veg fyrir brot á þeim. En enginn hefir þó farið fram á slíkt, jafnvel ekki sjálfur hinn hv. þm. En annars ber þeim ekki vel saman um fjölda rjúpnanna þar nyrðra, hv. 1. þm, Eyf. á aðra hlið og hv. þm. A.-Húnv. og hv. 2. landsk. þm. á hina, og eru þeir þó nágrannar að kalla má. Veit jeg ekki, hverjum frekar skal trúa. En hitt veit jeg, að best trúi jeg mínum eigin augum. Og er skemst frá því að segja, að í fyrra kom varla fyrir, að jeg sæi rjúpu, enda var það í frásögur fært hjer sunnanlands, ef sást til rjúpu. Nú í ár hefir þetta talsvert lagast, en þó er langt frá því, að rjúpan sjáist hjer svo nokkru nemi. Gefur að skilja, að jeg byggi mest á þessari þekkingu minni.

Viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. Eyf. skaut til nefndarinnar, að dálítið ósamræmi væri í því, að telja hið fastákveðna friðunarár frá 1. okt. í stað 20. sept., skal jeg taka það fram, að jeg fæ ekki betur sjeð en að það skifti litlu máli. Ef talið er frá 1. okt., þá verður rjúpan að vísu drepin frá 20. sept. til 1. okt. fyrra árið, en eftir hinni reglunni, að telja frá 20. sept., verður hún vitanlega drepin þessa sömu 10 daga síðara árið, eftir friðunina. Kemur þetta því í sama stað niður; rjúpan fær sína ákveðnu friðun, við hvorn daginn sem miðað er.