18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1692 í B-deild Alþingistíðinda. (1135)

59. mál, friðun rjúpna

Jón Þorláksson:

Það er einmitt til þess að bera af mjer sakir, að jeg stend nú upp. Hv. þm. Str. (TrÞ) mintist á málsháttinn, að sá er eldurinn sárastur, er á sjálfum brennur, og beindi því til mín. Jeg skoða þetta sem beinan áburð á mig, að jeg hafi talað hjer gegn betri vitund og að jeg viti til þess, að rjúpur hafi verið skotnar á friðunartímanum og hafðar til matar hjer í bænum. Jeg var ekki hjer á landi, þegar oftnefnd veisla var haldin, og get því ekki um það sagt, hvað þar gerðist. En að öðru leyti vil jeg eindregið mótmæla öllum slíkum áburði, er kann að felast í orðum hv. þm. Jeg get með sanni sagt, að jeg hefi ekki orðið var við það hjer í bænum, hvorki hjá sjálfum mjer nje öðrum, að íslenskar rjúpur hafi verið hafðar til manneldis allan þennan friðunartíma, nema 1. veturinn, þegar sumir menn áttu í íshúsum rjúpur frá árinu áður, og sagði þá bragðið til sín, að þær voru ekki skotnar eftir að friðunin komst á.

Að öðru leyti vil jeg taka undir með hv. þm. V.-Sk. (JK), og vona jeg, að nú verði ger sú rannsókn í þessu máli, sem er orðin óhjákvæmileg, þegar slíkar aðdróttanir eru komnar inn í þingsalinn og dregnar inn í umræðurnar.