12.04.1924
Neðri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1699 í B-deild Alþingistíðinda. (1143)

59. mál, friðun rjúpna

Pjetur Ottesen:

Jeg lýsti því yfir við 1. umr. þessa máls, að jeg væri því algerlega mótfallinn að lengja þann tíma, sem rjúpurnar væru alfriðaðar, en sá tími er nú útrunninn á næsta hausti. Ástæðan til þess, að jeg er á móti þessu, er sú, að reynslan hefir sýnt það, að rjúpum hefir fjölgað svo, að minsta kosti á Suðurlandi, að nú mun vera jafnmikið til af henni þar sem nokkurntíma áður, þá er mest var. Og eftir þeim upplýsingum, sem háttv 1. þm. S.-M. (SvÓ) nú hefir komið hjer með, mun sama gegna víðast hvar á Austurlandi. Einnig hefi jeg nýlega fengið svipaðar fregnir úr Þingeyjarsýslum, og sennilega mun líkt vera ástatt í Eyjafirði. Þær undantekningar, sem þá eru, gilda því aðeins fyrir einhverja tiltekna landshluta, líklega t. d. um nokkurn hluta Norður- og Vesturlands, — Skagafjarðar-, Húnavatns- og Strandasýslur. Þegar svo er komið, að rjúpunni hefir fjölgað þannig, finst mjer það vera undarlega hart að meina mönnum að notfæra sjer þessar veiðar, sem oft gefa talsverðar tekjur af sjer, og því undarlegra, sem vjer erum nú svo staddir, að lífsnauðsyn er á því fyrir okkur að auka framleiðsluna sem allra mest á öllum sviðum, til þess að losna sem fyrst úr því skuldahelsi, sem nú þrengir svo mjög að allri þjóðinni, en það er nauðsynlegur inngangur til þess, að hægt verði að byggja eitthvað upp aftur af því, sem aflaga hefir farið að undanförnu. Vil jeg ætla, að búandmönnum á landi hjer þyki það undarleg ráðsmenska hjá löggjafarvaldinu, að um leið og lagðar eru blýþungar álögur á allan almenning skuli þeim jafnframt vera fyrirmunað að afla sjer þeirra tekjustofna, sem annars væri hægt, en gjaldeyrisskortur er á alla vegu. En það er vitanlegt, að þetta yrði gert á hinn áþreifanlegasta hátt, ef banna skal rjúpnaveiðar í tvö ár enn, eins og frv. fer fram á. En það er alkunna, að rjúpnaveiðar hafa gefið af sjer allmiklar tekjur í sumum sveitum, einkum fram til dala og í fjallabygðum, þar sem menn oft eiga við einna þrengstan kost að búa og mestir erfiðleikar eru á því að komast þar af vegna harðinda og ýmislegs annars. Það er því áreiðanlega ráðist þar á garðinn, sem hann er lægstur, ef þessi tekjuvon skal af mönnum tekin. Tilgangurinn með þessum friðunarákvæðum er auðvitað sá, að láta rjúpunni fjölga ennþá meir. En ef nú svo færi, að á þessum friðunartíma kæmu harðindaköst, eins og t. d. 1920, — hvað verður þá úr þessu! Það er heldur alls ekki svo, að þeir menn, sem mótfallnir eru framlenging friðunartímans, vilji ófriða rjúpuna algerlega; það er síður en svo. Meiri hluti land búnaðarnefndar leggur til, að friðunarákvæðum laganna frá 1913 verði breytt þannig, að veiðitíminn, sem þar er ákveðinn frá 20. september til 31. janúar ár hvert, verði styttur svo, að hann verði aðeins frá 15. október til 31. desember. Þessu er jeg algerlega samþykkur, og jeg vildi meira að segja ganga nokkru lengra í þessu efni. Jeg álít alveg nóg, að veiðitíminn væri ákveðinn tveir mánuðir, t. d. frá 1. nóvember til áramóta, og er það einmitt af sömu ástæðum, að jeg er á þessari skoðun, og háttv. þm. Ak. (BL) tók fram. Jeg hygg því, að brtt. meiri hl. nefndarinnar sjeu til bóta, þó að þar sje lagt til, að þessi alfriðunartími 7. eða 5. hvert ár verði feldur niður. Jeg hygg, að rjúpnastofninn verði alveg eins vel eða betur trygður með því að stytta hinn árlega veiðitíma. Jeg mun þess vegna greiða atkvæði með brtt. meiri hl., en verði þær feldar, mun jeg þá kasta atkv. mínu á brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Vænti jeg, að háttv. þdm. taki þetta til athugunar og vilji stuðla að því með atkvæði sínu að bæta úr ósamræminu í gerðum þingsins í því, er það leggur mönnum auknar gjaldabyrðar á herðar, gjaldabyrðar, sem að vísu verður ekki komist hjá að bæta á þjóðina, en um leið að svifta þá menn, sem aðallega hafa haft not af rjúpnaveiðunum sjer til gjaldeyrisauka, þessum hlunnindum.

En út af þeim ummælum, sem fjellu hjer við 1. umr. þessa máls, að ummæli mín og hv. þm. Str. (TrÞ) um, að rjúpnakjöt hefði verið á borðum í einni stórveislu hjer í bænum, gæfu tilefni til þess að hafin yrði rannsókn og rjettarhöld í því máli, vil jeg lýsa yfir því, að þau rjettarhöld mega gjarnan byrja þegar í stað okkar vegna; við munum ekki láta á okkur standa að mæta þar.