12.04.1924
Neðri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1706 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

59. mál, friðun rjúpna

Sveinn Ólafsson:

Háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ) vildi vefengja frásögn mína um mergð rjúpnanna á Austurlandi. Taldi hann það máli sínu til stuðnings, að hann hefði nýlega átt tal við menn af Fljótsdalshjeraði á Austurlandi, sem hefðu gert lítið úr rjúpnafjöldanum þar. En þetta hefir að mínu áliti ekki mikið að segja. Það er eins á Austurlandi sem annarsstaðar, að sumar sveitir eru fátækar af rjúpum, en aðrar auðugar. Veðráttufarið hefir líka, eins og kunnugt er, mikil áhrif á það, hvar rjúpurnar halda sig helst; þegar snjóljett er, eins og núna í vetur, þá eru þær lítið á flatlendi og láglendi, en halda sig á heiðum uppi og til fjalla. Það rýrir því ekkert gildi minnar skýrslu, þótt í flatlendu sveitunum í Fljótsdalshjeraði hafi verið lítið um rjúpu í vetur í snjóleysinu, og er því lítil ástæða fyrir hv. þm. (JAJ) að draga í efa skýrslu mína fyrir þær sakir, enda er hún bygð á sjón og raun, en ekki á munnmælum.

Um það, hvort heppilegra sje að friða rjúpuna 7. hvert ár eða stytta árlegan veiðitíma, get jeg í raun og veru vísað til þess, sem hv. 2. þm. Skagf. (JS) sagði. Jeg er alveg samdóma honum í því, að það hafi sjerlega litla þýðingu fyrir viðhald rjúpunnar, að sá árlegi friðunartími sje lengdur, því menn víla ekki fyrir sjer að skjóta hana jafnt fyrir sem eftir friðunartímann, og verður nær ókleift að sjá við því, að svo verði gert. Hv. frsm. meiri hl. taldi það m. a. mæla á móti því að hafa veiðitímann jafnlangan og áður að haustinu, að þá væru annir svo miklar, að menn mættu ekki gefa sig við rjúpnadrápi. Jeg held, að menn setji það ekki fyrir sig, þegar rjúpan er komin nærri. Að minsta kosti hefir mín reynsla verið sú, að menn byrja veiðarnar strax þegar snjó festir í fjöll og rjúpan fer að færa sig niður undir bygðina.