12.04.1924
Neðri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1708 í B-deild Alþingistíðinda. (1149)

59. mál, friðun rjúpna

Hákon Kristófersson:

Viðvíkjandi því, sem hæstv. atvrh. (MG) sagði, skal jeg taka það fram, að til tals kom í nefndinni að setja inn í frv. sektarákvæði slík, sem hann gerði að umtalsefni. Kann að vera, að það sje misskilningur hjá mjer, en jeg hygg, að það hafi orðið ofan á hjá nefndinni, að slíkum sektarákvæðum yrði komið þar að. En hvað sem um það er, þá get jeg fúslega fallist á, að þau eru nauðsynleg. — Hvað snertir það, sem hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) talaði um, að málið hefði legið lengi hjá nefndinni, þá er það að vísu satt, en upphaflega var það svo, að við vissum ekki annað en að frv. myndi fara óbreytt frá nefndinni, eða þá með brtt. frá einum eða tveimur nefndarmönnum. En svo reyndist það ekki, og því eru þessar brtt. frá meiri hl. fram komnar.

Mjer virtist sá vera uppi hjá hv. þm. Borgf. (PO), að með þessu væntanlega rjúpnadrápi væri loks fundið eitt stórkostlegt bjargráð landsmönnum til handa, sem vega myndi á móti hinum auknu skattaálögum. Það situr auðvitað ekki á mjer að fara að bera brigður á þetta, enda gæti það ekki talist vel í hóf stilt, ef jeg færi að rengja jafngreinagóðan mann sem hv. þm. Borgf. En mjög leikur það samt á tveim tungum, hvort rjúpnamergðin sje í raun og veru eins mikil og hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. S.-M. vilja vera láta. Býst jeg helst við, að hvorugur þeirra hafi talið rjúpurnar.

En hvers vegna vilja þessir hv. þm. þá ekki taka skrefið í bjargræðisáttina fyllra og upphefja friðun á sel og æðarfugli? Jeg býst við, að ýmsum mönnum á Breiðafirði og víðar þætti ekki lítil búbót að því að fá að drepa sel og æðarfugl eins og þeim þóknaðist. Samdóma er jeg hv. 2. þm. Skagf. í því, að tilgangslaust sje að hugsa sjer, að rjúpurnar verði einvörðungu drepnar á þeim tíma, sem það er leyfilegt. Því yrði gagnslaust að lengja hinn árlega friðunartíma, því þær rjúpur, sem komið væri með og boðnar væru til sölu, t. d. í marsmánuði, væru auðvitað sagðar skotnar fyrir áramótin. Það er heldur ekki langt síðan um það var vitnað hjer í hv. deild, að rjúpur hafi verið fluttar til bæjarins og bornar á borð í fjölmennri veislu á þeim tíma, sem rjúpur voru annars alfriðaðar. Og skoðun manna er sú, að þetta hafi verið nokkuð alment, enda finst mjer það ekki ótrúlegt, að því komi fæturnir til bæjarins, að skrokkurinn komi með!!

Að lokum vil jeg taka það fram, að ef gera á breytingar við frv., þá mun jeg helst geta sætt mig við brtt. hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), þó að jeg hefði annars helst kosið, að málið hefði verið látið ganga óbreytt fram eins og það kom frá háttv. Ed., og þá með viðauka hæstv. atvrh. (MG).