12.04.1924
Neðri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1709 í B-deild Alþingistíðinda. (1150)

59. mál, friðun rjúpna

Pjetur Ottesen:

Jeg er ekki eins hræddur og hv. 2. þm. Skagf. (JS) við það, að gagnslaust sje að stytta hinn árlega friðunartíma, vegna þess, að menn muni eins skjóta á sjálfum friðunartímanum sem á undan honum og eftir. Það er vitanlegt, að ekki er hægt að fara mjög dult með skot. Þau leyna sjer ekki, svo að ef kapp væri lagt á rjúpnadrápið, þá væri óhugsanlegt annað en að það kæmist upp. Þannig kemur skotaðferðin sjálf í veg fyrir, að farið sje í þessu efni í kringum lögin.

Jeg vil leggja aðaláhersluna á það, að það, sem mest stuðlar að eyðileggingu rjúpunnar, er hagleysi og jarðbönn. Og þó að rjúpan sje friðuð 7. hvert ár, þá hefir það í sjálfu sjer lítið að segja, því að eitt ár með hörkum og hagleysum, eins og t. d. 1920, drepur fleiri rjúpur en drápið nemur öll hin 6 árin. En tortímist þannig mikið af rjúpunni af náttúrunnar völdum, þá er hægur nærri að friða hana algerlega um tíma, þangað til henni hefir fjölgað á ný.

Þá var það auðvitað ekki annað en ljelegur útúrsnúningur hjá hv. þm. Barð. (HK), að jeg hafi hugsað mjer að vega með þessu upp á móti öllum skattaálögunum. Jeg sagði ekkert það, sem hægt væri að álykta þetta út frá. Hitt efa jeg ekki, að þetta sje spónn í aski þeirra manna, sem annars hafa þessar nytjar. Og á þeim tímum, sem öll þjóðin verður að leggjast á eitt með að spara, þá dugir ekki að láta slíkar nytjar ónotaðar.

Þá hefir selaveiði verið blandað inn í þessar umr., og hefir þar víst helst verið átt við ófriðun sels fyrir skotum. En það er líka álitleg tekjugrein að veiða selinn í net, og sú veiði kemur fleiri mönnum að notum. Er þar því alt öðru máli að gegna.