25.03.1924
Neðri deild: 32. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

1. mál, fjárlög 1925

Magnús Jónsson:

Fyrri hluta fjárlaganna fylgdi jeg háttv. fjvn. bæði með að samþykkja till. hennar og vera á móti öðrum till. En ekki mun jeg treysta mjer til að fylgja nefndinni í gegnum þykt og þunt í síðari hlutanum. Verð jeg að minnast á örfáar af brtt., sem nefndin hefir borið fram. Jeg er algerlega sammála háttv. frsm. nefndarinnar um, að samræmi ætti að vera í skrifstofukostnaði landlæknis og biskups. En þar skilja leiðir og dreg jeg aðrar ályktanir af þessu en hv. frsm. og skora fastlega á deildina að fella það, sem hann vill láta samþykkja í þessu máli. Þessi liður hefir hingað til verið jafnhár, en er nú færður niður um helming hjá öðrum. Finst mjer því rjettlátt að fella till. Hv. fjvn. gæti þá tekið hana til 3. umr., ef henni býður svo við að horfa. Ef borin eru saman skrifstofustörf þessara tveggja embættismanna, verður lítt á munum; tel jeg því vel fara á, að þeir fylgist að.

Með 73. brtt. er farið fram á, að styrkurinn til ljósmæðrakenslu verði færður niður úr 900 kr. í 600 kr. Teldi jeg það eðlilega niðurfærslu á styrknum, að hann hjeldi sjer óbreyttur, þar eð búast má við að frv. það nái fram að ganga, sem nú er á ferðinni og þar sem kenslutíminn er lengdur um

Jeg á brtt. nr. XVI á þskj. 196, ásamt öðrum þingmönnum Reykv., viðvíkjandi kvennaskólanum í Reykjavík. Mun óþarft fyrir mig að fara mörgum orðum um þessa till., þar eð hæstv. ráðherrar hafa mælt svo vel með henni. Er það alviðurkent, að kvennaskólinn í Reykjavík er með merkustu skólum landsins og hefir starfað í 50 ár við góðan orðstír. Sjerstaklega hefir hann alla tíð haft þá prýði til að bera, sem fegurst þykir á hverri stofnun, að vera sparsamur í rekstri. Hafa laun þar verið mjög lág og tímakensla notuð eftir því sem unt var. Á skólinn að þakka gengi sitt öðru fremur heppni sinni um val forstöðukvenna. Þekkja allir hina þjóðkunnu forstöðukonu, sem stofnaði skólann og stýrði honum um langt skeið. Og allir þekkja forstöðukonuna, sem nú er, og vita, að henni hefir farið stjórnin prýðisvel úr hendi. Veit jeg, að menn þeir, sem til þekkja, ljúka upp einum munni um það, að forstöðukonan beiti í stjórn sinni lipurð, en þó þeirri festu og strangleika, sem nauðsynlegur er til þess, að menn sendi dætur sínar óhræddir til skólans. Á og skólanefndin miklar þakkir skilið fyrir einstaka natni og sparsemi og nákvæmni í stjórn sinni. — Jeg hygg, að á þessum 50 árum, sem skólinn hefir starfað, hafi hann unnið stórkostlegt menningarstarf og jafnvel meira en nokkur annar skóli hjer á landi. Hann hefir dreift út um alt land vel mentuðum og prúðum húsfreyjuefnum, sem hafa gert heimilin vistleg og snyrtileg. Skólaskýrsla 1922–’23 sýnir, að um helmingur námsmeyja er utanbæjar, eða 61 af 114, og svo mun jafnan hafa verið. Það er og eftirtektarvert, að skólinn er sóttur af stúlkum úr fjarlægum sem nálægum sýslum, t. d. 6 úr Eyjafjarðarsýslu, 4 úr Rangárvallasýslu, 4 úr Árnessýslu, 11 frá Ísafirði o. s. frv. Er það því ákaflega fjarri sanni, að skólinn sje sjerstaklega fyrir Reykjavík og nágrenni hennar. Og jeg efast um, að nokkur skóli hjer í bæ megi síður teljast bæjarskóli en einmitt þessi.

Mun það hafa vakað fyrir skólanefndinni, að ánægjulegt væri, ef skólinn á þessu 50 ára afmæli yrði tekinn í tölu ríkisskóla. Sá þó nefndin sjer ekki fært að fara fram á þetta að svo stöddu, enda voru henni ljósir örðugleikar þeir, sem við er að stríða, og óvissan um fjárhag ríkissjóðs.

Aftur á móti mun mörgum vinum skólans hafa þótt leitt, að fjvn. fór fram á, að styrkurinn til hans yrði lækkaður, og það einmitt nú í 50 ára minningu starfsemi hans. Það væri ómaklega að verið.

Hv. fjvn. hefir nú einmitt tekið upp þá heilbrigðu reglu, að áætla hvern lið sem næst því, er búast má við, að gjalda þurfi til hans. Og þar sem nú hv. frsm. hefir lýst því, að þeirri reglu muni fylgt framvegis sem hingað til, að borga það, sem þessi skóli þarf, þá vonast jeg til að menn geti á það fallist, að rjett sje að setja upphæðina hærri, eins og við förum fram á. í brtt. háttv. fjvn. er farið fram á, sem skilyrði fyrir fjárveitingunni, að skólinn fái allríflegan styrk annarsstaðar frá. Einn aðaltekjustofn skólans eru skólagjöldin. Námu tekjur skólans af þeim á síðastliðnu reikningsári liðlega 10 þús. kr. Á verðbrjefum græddi skólinn rúmlega 1000 kr., svo að tekjurnar „annarsstaðar frá“ eru ekki svo litlar, jafnvel þó að tillag bæjarsjóðs sje lágt.

Jeg er sammála hæstv. atvrh. og hæstv. fjrh. um, að það er ekki sanngjarnt að ætlast til hærra fjárframlags frá bæjarsjóði, því hann mun síst betur stæður en ríkissjóður. Bæjarsjóður Reykjavíkur hefir undanfarið veitt skólanum 500 kr. Það ber að skoða sem nokkurskonar þóknun eða glaðning fyrir það, að skólinn er rekinn hjer. Má það varla þykja von, að bæjarsjóður sjái sjer nú fært að leggja skólanum meira fje heldur en hann hefir gert, því til þess er í raun rjettri engin frambærileg ástæða.

Af því að minst hefir verið hjer á Blönduósskólann, get jeg þess, að jeg sje engar ástæður til þess að greiða hærri styrk til hans, þótt hann sje húsmæðraskóli, en eigi almennur kvennaskóli. En þess má þá líka geta, að í kvennaskóla Reykjavíkur er einnig húsmæðradeild og eru þar nú 24 stúlkur.

Nokkrum orðum verð jeg einnig að fara um brtt. háttv. fjvn. nr. 106. Fer hún fram á, að tekinn sje styrkurinn af sjera Jóh. L. L. Jóhannssyni til samningar orðabókarinnar. Hjer verður að líta á það, að maður sá, sem um ræðir, er embættismaður, sem fór úr stöðu sinni hingað til bæjarins til þess að vinna að þessu verki. Hann er nú orðinn aldraður maður og hefir mikla ómegð, og er ekki hægt að svifta honum svo á milli embætta. Auk þess verður Alþingi að hafa það jafnan í huga, hvað við fáum fyrir veitt fje, en síður hvað greitt er. Fyrir 7 þús. kr. fáum við fult starf þessa manns, en ef hann aðeins fær 4 þús. kr., hlýtur hann auk starfs síns að verða að snapa sjer tímakenslu, og verður starf hans við það rýrara og lakara. (Frsm. ÞórJ. Það er ekki ætlast til neins starfs af honum). Nú jæja. Þá fer nú rökleiðslan og fjármálaviskan að færast í aukana. Maðurinn hefir haft 7 þús. kr. fyrir fult verk. Nú á hann að fá 4 þús. fyrir ekkert. Ætli það sje skynsamlegra en bæta þá við 3 þús. kr. og láta hann vinna? Þá fæst alt verkið fyrir 3 þús. kr., sem áður kostaði 7 þús.

Jeg get ekki fallist á þær röksemdir nefndarinnar, að svifta beri Guðmund Bárðarson ríkisstyrk af því að hann hafi mist styrk frá sáttmálasjóði. Jeg álykta hið gagnstæða og vona, að háttv. deildarmenn geri það sama, því annars fer maður að verða hræddur um, að önnur „logik“ gildi hjer innan þessara veggja en alment er brúkuð í veröldinni annars.

Þá kem jeg að 113. brtt., um að styrkurinn til Þórarins Guðmundssonar falli niður. Jeg held, að hjer gæti einhvers misskilnings og menn mega vara sig á því, að hjer er miklu fremur um það að ræða að styrkja fátæka utanbæjarpilta en sjálfan listamanninn, sem kennir þeim ókeypis fyrir styrkinn. Veit jeg, að ýmsir hafa notfært sjer þessa ókeypis kenslu, en nú er auðvitað fyrir hana tekið, ef þessi till. nær fram að ganga, og tel jeg það illa farið.

Jeg skal ekki fara langt út í brtt. nr. 127, um fjárveitingu til leiðbeiningar við húsagerð til sveita, nje blanda mjer í deiluna um þann mann, sem þetta starf hefir haft með höndum undanfarið. En þess er jeg fullviss, að maður er til, sem er vel fallinn til þessa starfs, og býst jeg við, að hv. Ed. gæti bent á hann. Og mjer er fjarri að halda, að starf þetta sje ónauðsynlegt. Það er hörmulegt þegar menn brjótast í því að setja upp stórar og dýrar byggingar, sem mishepnast svo fyrir þekkingarleysi einvörðungu. Og mörg eru þess dæmi, að frágangurinn á húsum er mjög ljelegur og vondir gallar á þeim, sem hægt hefði verið að sneiða hjá, ef einhver hefði verið til leiðbeiningar. Mun jeg að þessu athuguðu greiða atkvæði mitt með þessari fjárveitingu, en lausri við aths. hv. fjvn.

Þá kem jeg að brtt. minni á þskj. 196 við 19. gr., að Ólafi Hvanndal myndamótara verði veitt uppgjöf á eftirstöðvum af viðlagasjóðsláni að upphæð nú 4334 kr. Var honum á þinginu 1922 veittur greiðslufrestur á þessu láni, en hann hefir tjáð mjer, að hann eigi ekki hægara með að greiða þessa skuld nú en þá. Það er mjög erfitt að fá iðn þessa til að borga sig hjer á landi. Eins og menn kannske muna, þá var fyrir nokkrum árum sett hjer samskonar fyrirtæki á laggirnar, sem hafði miklu meira fjármagn að baki sjer en þessi maður hefir og var ágætlega búið að öllum tækjum, en þó var eingöngu tap á rekstrinum, og lagðist það því niður. Sýnir það, að hjer er ekki feitan gölt að flá. Á hinn bóginn var þetta þó Ólafi Hvanndal til allmikils hnekkis, eins og gefur að skilja. Vil jeg því mælast til, að hv. deild sinni þessu. Eins og hv. þm. sjá, þá er hjer ekki um stóra upphæð að gera, og má vel vera, að hún næðist smátt og smátt. En jeg hefi líka komið með varatill. um, að honum verði veittur greiðslufrestur. Álít jeg, að hið háa Alþingi ætti fremur að styðja þessa starfsemi heldur en hitt, og er engin von til þess, að annar komi í staðinn, ef þessi maður verður að gefast upp sökum fjárhagsörðugleika.