03.04.1924
Neðri deild: 41. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1808 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

90. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Magnús Torfason:

Mig undrar, hvað mikill hiti hefir orðið út af svo litlu og sjálfsögðu máli. Jeg þykist skilja, að hv. þdm. þekki ekki, hvað hjer er um að ræða, sveitaþingmenn að minsta kosti. Og til þess að upplýsa þetta, vil jeg segja frá minni reynslu. Þegar jeg 1889 kom fyrst til Kaupmannahafnar, þá rjeð þar einfaldur meiri hluti, sem voru íhaldsmenn, og spyrntu þeir á móti hlutfallskosningu. Síðar verða þeir í minni hluta og þá komu þeir skríðandi og báðu um hlutfallskosningu, og fengu hana vitanlega.

Þegar jeg kom til Ísafjarðar, voru þar 2 bæjarfulltrúar úr alþýðuflokki, en 4 úr hinum, og útilokuðu þeir minni hlutann, nema einn mann úr lítilfjörlegustu nefndinni. Síðar varð það að samkomulagi að kjósa í nefndir úr minni hlutanum þá menn, sem minni hlutinn vildi hafa þar. En þessi lög girða einmitt fyrir ofríki þegar ekki næst slíkt samkomulag, sem stundum verður.

Í nál. minni hl. er í þessu sambandi vitnað til ályktunar, sem gerð var í bæjarstjórn Hafnarfjarðar út af þessu máli. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„.... að með því að smeygja frv. .... inn á Alþingi .... sje gerð óþörf tilraun til þess að smitta bæjarstjórnina af kosningaríg borgaranna og að innleiða þar flokkadrætti og sundrung að ófyrirsynju.“

Mjer sýnast þessi orð benda á, að samkomulagið sje ekki eins gott í bæjarstjórninni og látið er í veðri vaka. Það er áríðandi, að minni hlutinn geti ráðið því sjálfur, hvaða menn sitja í nefnd af hans hálfu, en það verður ekki trygt á annan veg en með hlutfallskosningu. En engin von er til þess, að slík beiðni komi frá meiri hlutanum.

Að þetta mál er flutt af öðrum en þm. kjördæmisins, er ekkert óeðlilegt í mínum augum. Það er eðlilegt, að minni hlutinn snúi sjer í þessu efni til síns flokks. Við það er ekkert að athuga.