11.04.1924
Efri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1832 í B-deild Alþingistíðinda. (1299)

120. mál, Landhelgissjóður Íslands

Sigurður Eggerz:

Jeg skil vel þá kenningu hv. þm. Vestm. (JJós), að gæsluskipið þurfi ekki að vera hraðskreitt, því óskabarn Vestmannaeyinga fer hægt. Þó að jeg segi þetta, þá mega menn ekki taka það sem svo, að jeg sje á móti styrknum til Þórs. Jeg hefi altaf verið hlyntur þessu fyrirtæki Vestmannaeyinga. En þó komið verði hjer af stað íslensku strandvarnarskipi, þá er það ekki meiningin, að það liggi altaf inni á höfn. Það liggur í hlutarins eðli, að það er heppilegt, að skipið sje sem hraðskreiðast, því að það á því hægra með að ná í sökudólgana. En það er nauðsynlegt til þess að hægt sje að sekta þá. Ástæðan til þess, að jeg tek svona í þetta mál, er sú, að jeg vildi helst láta skera það niður strax, því að mjer finst þetta þing svo illa artað í sjálfstæðismálum landsins. Hjer í hv. deild hefir verið skilið svo við hæstarjett, að hann lítur út eins og hann væri venjuleg íslensk hreppsnefnd. Og svo á að leggja niður sendiherraembættið. Og enn er það, að ekkert er gert til að greiða úr málum okkar á Spáni. Virðist hjer vera ríkjandi almenn ótrú og fyrirlitning á sjálfstæðismálum þjóðarinnar.