10.04.1924
Neðri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1893 í B-deild Alþingistíðinda. (1361)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg hefi ekki allmiklu hjer við að bæta, þar sem hv. samþm. minn, 3. þm. Reykv. (JakM), hefir skýrt málið svo vel. Vil jeg þakka honum og hv. 2. þm. Rang. (KlJ), sem voru mjer að mestu sammála. Þó var ýmislegt raunar í ræðu hv. 2. þm. Rang., sem jeg get ekki felt mig við. Jeg er á því, eins og hv. 4. þm. Reykv. (MJ) sagði, að það má lengi karpa um þetta mál, og jeg býst við því, að skoðanir manna breytist þó lítið við það. Sá hv. þm. (MJ) talaði um það, að hann gæti verið með því að leggja skatt á lóðir í bæjum meðan þær væru í lágu verði. En þetta er nú altaf álitamál. Og hvenær hefði hann þá viljað fá lóðargjald hjer í Reykjavík? Það er engu hægt að spá um framtíðina, hvort verð á lóðum hækki eða lækki, en við vonum allir, að þær muni fremur hækka, og fyrir því eru langsamlega meiri líkur. Það er undantekning, að menn hafi keypt dýrar lóðir nú. En hitt er alkunnugt, að mjög margir eiga lóðir frá fornu fari, sem hafa mjög hækkað í verði hjer í bænum fyrir aðgerðir bæjarfjelagsins. Þannig er t. d. um lóðir hjer við höfnina. Þær hafa hækkað geypilega í verði við það, að bærinn hefir lagt á 4. miljón króna í hafnarvirki, og þeir menn, sem þessar lóðir hafa átt meðan þær voru að hækka í verði af þessum ástæðum, og eiga þær enn í dag, hafa grætt mjög mikið á þennan hátt, og er því fullkomlega sanngjarnt, að þeir greiði skattinn. Og á svipaðan hátt hafa allar aðrar lóðir hækkað í verði fyrir aðgerðir bæjarins, til hagnaðar fyrir einstaka menn, sem hafa átt lóðirnar gegnum allar verðbreytingar.

Þá vildi jeg geta þess, út af því, sem talað hefir verið um lóðargjaldið, að svo var til ætlast, þegar bæjarstjórn samþykti þetta frv., að lóðargjaldið gengi til þess að lækka aukaútsvörin, og þá auðvitað til þess að lækka útsvör lóðaeigenda líka. — Það er alls ekki þýðingarlaust, eins og háttv. 4. þm. Reykv. vildi láta í veðri vaka, hvort húsa- og lóðargjaldið er ákveðið í einu eða tvennu lagi. Þvert á móti hefir það mikla þýðingu. Ef þessi gjöld verða krafin sem sameiginlegt gjald af eigendum fasteigna, er miklu frekar við því að búast, að þau verði látin koma niður á leigjendum heldur en ef það er vitanlegt, að lóðargjaldið er sjerstakt gjald af sjerstakri eign.

Háttv. 2. þm. Rang. talaði um skipun niðurjöfnunarnefndar og taldi, eins og hæstv. fjrh. (JÞ), að fyrirkomulagið væri verra nú en áður hefði verið. En reynsla þeirra, sem þessu eru kunnugastir, gengur í þveröfuga átt. Jeg er ekki að lasta það, þótt almenningur fái að kjósa þessa menn, en jeg hugsa, að bæjarstjórn muni velja fult svo vel, og jeg held, að það geri litla breytingu, hvort mennirnir eru valdir af bæjarstjórn eða með almennri kosningu, því flokkarnir í bæjarstjórn munu í flestum tilfellum hafa í kjöri alveg sömu mennina og annars mundi gert verða.

Þá er tala manna í niðurjöfnunarnefnd. Jeg held, að það sje ekki til annars en tafar að hafa þá mjög marga. Og hvað snertir kunnugleik á efnum og ástæðum bæjarmanna, þá vegur það miklu meira að geta haft hliðsjón af framtalsplöggum til tekju- og eignarskatts í ríkissjóð. Að vísu þekkist það, að lagt er útsvar á mann til bæjarsjóðs, sem ekki greiðir skatt til ríkisins, en þá er lagt á ástæður hans.

Þá mintist hv. 2. þm. Rang. á gjalddaga og taldi heppilegra, að þeir sjeu tveir. Jeg verð að telja víst, að þó svo yrði ákveðið með lögum, að gjalddaginn sje einn, þá verði fylgt þeirri reglu, er venja hefir verið, að bæjargjaldkeraskrifstofan sendir út sína innheimtumenn, og margir gjaldendur munu geta samið við þá um að borga útsvarið í mörgu lagi. Og útsvarið verður þá áreiðanlega ekki tekið lögtaki meðan þeir samningar eru haldnir og ekki bregður út af. Sami háttv. þm. sagði, að í Kaupmannahöfn væru fleiri gjalddagar en hjer. En þar hygg jeg, að innheimtumenn hafi meira vald en hjer. Jeg ætla, að þeir geti tekið gjöldin þegar lögtaki, ef ekki er greitt á gjalddaga, en hjer verður að fara þá flóknu leið að senda útsvaralistann til bæjarfógeta, en hann hefir svo ekki fólk til að framkvæma innheimtuna, svo alt dregst fram á vetur, en þá eiga menn einmitt erfiðast með að greiða öll gjöld. Og á þessu verður ekki breyting, nema gjalddagi sje ákveðinn svo tímanlega, að hægt sje að innheimta útsvörin öll á haustin, þegar búast má við, að flestir hafi peninga. Jeg vil því, að haldið verði því fyrirkomulagi, sem greinir í frv. um gjalddagann. Það mun reynast heppilegast.

Hæstv. fjrh. var að lýsa því, hver skattur væri með þessu frv. lagður á ríkissjóð. Jeg vil nú bæta ögn við þær upplýsingar, sem háttv. 3. þingmaður Reykv. gaf inn þetta atriði í ræðu sinni. Bæjarsjóður greiðir af holtunum og mýrunum hjerna í kringum bæinn um 6 þús. kr. í ríkissjóð, og auk þess auðvitað af öðrum lóðum sínum og löndum, svo allir geta sjeð, að hjer munar ekki miklu á því, sem ríkinu er ætlað að greiða í bæjarsjóð. Annars fanst mjer hæstv. fjrh. vera á þeirri skoðun, að fulllangt sje gengið með till. minni hl. hjer. En það ber nú raunar ekki mikið á milli till. minni og meiri hlutans. Minni hl. vill hafa lóðarskattinn sjerstakan og að hann sje 1%, en meiri hl. húsa- og lóðarskattinn sameiginlegan 1,6%. Það þarf ekki að vera að mæla á móti 2% lóðargjaldinu, sem í frv. stendur, þar sem litlar líkur eru til, því miður, að það verði samþykt. Annars hefir hæstv. fjrh., þegar hann var í bæjarstjórn Reykjavíkur, lagt til, að skatturinn yrði 1% af lóðum, og sje jeg ekki mikinn mun á ástandinu þá og nú.

Í tilefni af orðum hv. 2. þm. Rang. og andmælum hæstv. fjrh. vil jeg taka það fram, að mjer finst hv. 2. þm. Rang. hafa rjett að mæla í því, að bæjarfjelögin eigi að hafa sem mest sjálfræði um sín málefni. Og jeg vil eindregið mótmæla því, sem mjer virtist mega skilja af orðum hæstv. fjrh., að ríkisvaldið fái í nokkrum verulegum atriðum að blanda sjer í sjálfstjórn bæjarfjelaganna. Bæjarfjelögin sjá best, hvað þeim hentar, og þótt þau kunni að komast í fjárhagslegt öngþveiti, þá þarf það alls ekki að stafa af neinni óstjórn. Ríkissjóður er nú í kröggum sjálfur, og hefir enginn lýst því svartar en hæstv. fjrh., svo það er ekkert undarlegt, þótt fjárhagsörðugleikar geri vart við sig hjá bæjarfjelögum og sveitarfjelögum.

Hæstv. fjrh. talaði einnig um skipun niðurjöfnunarnefndar. Því hefi jeg áður svarað. Þar vil jeg ekki breyta til. Það fyrirkomulag, sem nú er, hefir staðið um tveggja ára skeið, og reynslan hefir orðið sú, að dómi þeirra, sem best þekkja, að það sje mun betra en hið gamla fyrirkomulag. Verkið vinst betur og samræmi næst meira í álagningu. Jeg tek undir það með hv. 3. þm. Reykv., að það næst engu meiri kunnugleiki á efnum fjöldans og ástæðum, þó mönnum sje fjölgað í nefndinni.

Jeg vil loks vænta þess, að hinu háa Alþingi megi auðnast að afgreiða þetta frv. á viðunandi hátt. En hitt teldi jeg mjög misráðið, ef gengið yrði í bága við þann grundvöll, sem bæjarstjórnin hefir lagt í þessu frv. En það tel jeg að sje gert, ef slengt er saman húsa- og lóðarskatti. Þess hefir áður verið getið, að deilt hafi verið um ýms mál hjer í bænum og í bæjarstjórn. En um lóðargjaldið hefir verið fult samkomulag, og það hafa farið fram kosningar meðan þetta lóðargjaldamál var á döfinni, og alls ekki bólað á neinum óvilja bæjarbúa um þá stefnu bæjarstjórnar. Það er ekki rjett að segja, að nokkur veruleg mótspyrna gegn þessu máli hafi látið á sjer bæra hjer í bænum, þó að fáeinir menn hafi verið því mótfallnir, því bæjarstjórn og allur þorri kjósenda telja þessa stefnu rjetta og hið háa Alþingi má ekki draga það að veita bæjarstjórninni lagaheimild til þess að geta aflað þeirra tekna í bæjarsjóð, sem hún þarf og hinir breyttu tímar heimta.

Þá vil jeg ennfremur benda á ákvæði 7. gr. frv., sem líklega er sjerstakt fyrir Reykjavíkurbæ, um álögur á utanbæjarmenn. Þetta ákvæði er mjög mikilsvert, því eins og kunnugt er, þá er nú að rísa upp á bæjartakmörkunum stórt þorp, og er þaðan aðeins 5 mínútna gangur niður í miðbæinn. Nýlega hafa þarna verið auglýstar ca. 80 lóðir til sölu, og þeir menn, sem þarna búa, geta stundað atvinnu inni í bænum eins og þeir væru þar búsettir. Þannig hafa efnamenn sjeð ástæðu til að flytja út fyrir bæjartakmörkin, til þess að losa sig við álögur. Eins og nú er, getur bæjarsjóður ekkert gjald á þessa menn lagt.

Jeg vænti þess, að málinu verði hraðað og frv. samþykt á þeim grundvelli, sem bæjarstjórn og bæjarbúar greinilega hafa óskað og engin veruleg rök mæla á móti.