08.04.1924
Neðri deild: 45. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1908 í B-deild Alþingistíðinda. (1373)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg á hjer litla brtt. við niðurlag a-liðs 3. gr., um að orðið „tryggingar“ falli burt, til þess að skilningur allshn. komi ljósara fram. Ef mín brtt. nær fram að ganga, verður orðalagið þannig, að bærinn annist útrýming á rottum og ráðstafanir gegn eldsvoða. Jeg vonast til, að hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) taki till. sína á þskj. 364 aftur. Af því að háttv. frsm. meiri hl. allshn. (MJ) er veikur í dag og því ekki viðstaddur, vildi jeg taka þær brtt., er fram hafa komið, til athugunar, án þess þó, að jeg hafi nokkurt umboð til þess.

Jeg skal þá fyrst minnast á brtt. á þskj. 359, frá hv. 3. þm. Reykv. (JakM). Hún fer ekki fram á neina efnisbreytingu, þar sem gjaldið af húsum og lóðum er hið sama eftir henni sem frv. Þessi brtt. mun ekki hafa aðrar afleiðingar en þær, að semja verður 2 skrár, skrá yfir skatt af húsum og skrá um skatt af lóðum, sem húsin eru bygð á, og þeim, sem óbygðar eru, í stað þess, að eftir frv. mætti komast af með eina skrá. Fer tillagan því beinlínis fram á að auka skriffinskuna. Vitanlega er skatturinn af húsum og lóðum samanlagður miklu hærri en kostnaðurinn við þær skyldukvaðir, sem lagðar eru á bæjarsjóð eftir 2. gr., og er því alveg þýðingarlaust, hvort þessi verk eru talin unnin sem endurgjald fyrir húsaskattinn einan eða fyrir nokkurn hluta af báðum sköttunum samanlögðum.

Þá eru brtt. hv. 2. þm. Reykv. (JBald) á þskj. 366. Jeg sje enga þörf á að fella það í burt, sem 1. tillagan fer fram á, en hinsvegar mundi það tæplega koma að sök, og virðist tillagan því ástæðulaus. Um 2. brtt. er það að segja, að það er ekki ástæðulaust, að bæjarbúar fái einhvern óvilhallari aðilja til að fella lokaúrskurð um útsvarskærur heldur en bæjarstjórnina. Ef jeg vildi, gæti jeg nefnt ýms dæmi um innanbæjarmenn og fyrirtæki, sem gera það bert, að þörf er á óviðriðnari aðilja en bæjarstjórninni til þess að skera úr þessum málum. Þetta er mjer kunnugt af starfsemi minni í bæjarstjórninni. Það er því skoðun mín, að hv. deild ætti ekki að aðhyllast þessa brtt.

Hinsvegar mætti halda því fram, að það væri ef til vill ekki næg trygging fyrir utanbæjarmenn, að þeir eigi málskot til yfirskattanefndar bæjarins, sem hefir litlar ástæður til þess að vera kunnug högum þeirra heima fyrir. En þó er það betra heldur en það, sem nú er. Í sambandi við þetta verð jeg að segja það, að ákvæði 7. gr. um útsvarsskyldu utanbæjarmanna ganga lengra en góðu hófi gegnir. Þar er heimilað að leggja útsvar á menn úr öðrum hjeruðum, ef þeir stunda hjer atvinnu lengur en 3 mánuði. Það er ekkert á móti því, að þessir menn greiði hjer eitthvert gjald, en jeg vil leyfa mjer að benda á, að ekki má gera ráð fyrir neinum verulegum kunnugleika hjá niðurjöfnunarnefnd á högum þeirra heima fyrir. Hún mun að jafnaði ekki hafa vitneskju um annað en kaup þeirra hjer í bænum, en hagur þeirra getur verið mjög misjafn og ástæður til þess að greiða opinber gjöld af því kaupi. Það má vera rjett, að bæjarfjelagið leggi eitthvað á þessa menn, og fer jeg því ekki fram á neina breytingu á þessu ákvæði, en þá þyrfti næsta þing að setja lög, er kveða á um skiftingu útsvars milli atvinnusveitar og þeirrar sveitar, sem þeir menn eru búsettir í, sem verða útsvarsskyldir á 2 stöðum. Það er gert í öðrum löndum og verður óhjákvæmilegt hjer, þegar þetta fer að verða svo alment, að menn greiði útsvar á 2 stöðum, sem nú mun koma í ljós, þegar Reykjavíkurbær hefir rjett til að leggja á alla þá menn, sem stunda hjeðan atvinnu á skipum, þótt ekki sje nema eina vertíð. En ákvæði þessa frv. mun ekki vera því til fyrirstöðu, að rjettlát skipun verði gerð á þessu í sjerstökum lögum.

Eftir atvikum get jeg verið meðmæltur 3. brtt. Jeg hygg, að hún feli í sjer gagnlegar breytingar á 11. gr., eins og hún er nú.