07.04.1924
Neðri deild: 44. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2296 í B-deild Alþingistíðinda. (1707)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Sigurjón Jónsson:

Jeg ætla að boða það, að jeg hefi hugsað mjer að koma fram með brtt. við 3. umr. við frv. þetta. Jeg ætla að sjá í þetta sinn, hvernig atkvæði falla. Mun jeg þar leggja til, að ríkissjóður greiði útsvör á þeim stöðum, sem hann hefir rekstur á, hlutfallslega við þann hagnað, sem reksturinn gefur á hverjum stað. Gefst þá tækifæri til þess að sjá, hvort meira má sín hjá hv. þm. sanngirni eða hagsmunir Reykjavíkur.

Jeg vildi aðeins minnast á þá till. minni hl., að hafa gjaldið af gróða steinolíuverslunarinnar aðeins 2%. Það hefir verið sagt, að hún væri ekki gróðafyrirtæki. Ef enginn ágóði er af henni, stendur á sama, hver rentufóturinn er. Ef hinsvegar er um gróða að ræða, er miklu meiri ástæða til að skattleggja hana heldur en þau fyrirtæki, sem ríkissjóður rekur í beinu gróðaskyni. Jeg get nefnt sem dæmi, að steinolíuverslunin á Ísafirði græði 20–30 þús. kr. Er þá í fyrsta lagi rjett að hafa lægri skatt af þessum gróða en öðrum, og í öðru lagi, að skatturinn renni allur til Reykjavíkur! Jeg vona, að hv. deild sjái, hversu fráleitt þetta er.