09.04.1924
Neðri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2308 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Sigurjón Jónsson:

Jeg á hjer eina brtt. á þskj. 321, sem jeg hefi áður gert grein fyrir og þarf því ekki að segja margt um nú. Hún fer fram á það, að verslunarstofnanir ríkissjóðs beri gjöld sín og greiði á þeim stað, þar sem þær eru reknar, en að Reykjavík njóti hinsvegar ekki verslunarhagnaðar þessara fyrirtækja á öðrum stöðum. Ef verslunarstofnanir ríkisins hafa útibú einhversstaðar, t. d. á Ísafirði, og hagnað þar af rekstrinum, þá eiga þær að greiða útsvör sín þar, en ekki í Reykjavík. Þar sem jeg hefi rætt um þetta áður, skal jeg ekki fara fleiri orðum um það nú, en vona, að hv. deild sjái, hve brtt. mín er fullkomlega sanngjörn.