11.03.1924
Neðri deild: 20. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í C-deild Alþingistíðinda. (1845)

57. mál, veð

Flm. (Magnús Torfason):

Tilgangurinn með þessari lagabreytingu er meðal annars sá, að sú áhöfn, sem lánveitandi vill hafa með jörðunum að veði, sje föst við jarðirnar. Þegar ábúendaskifti verða á slíkum jörðum, verður búfjeð tekið út á sama hátt og innstæðukúgildi nú. (MG: Þetta stendur hvergi í frv.). Það er satt, þetta stendur ekki í frv., en að sjálfsögðu semja bankarnir um, hvað mikið fylgi jörðunum að veði í hvert sinn, sem slík veð eru tekin, og munu þá brátt myndast um þetta fastar reglur, og er enginn vafi á því, að þá verða gefin út fyrirmyndareyðublöð til útfyllingar, um það, hversu þessu skuli haga. En einmitt með þessu, að áhöfnin verður tekin út með jörðinni við ábúendaskifti, verður áhöfnin föst við jörðina.

Að því er snertir lausafjárveðrjett, þá er mjög lítið gert að því að veðsetja lausafje, þar sem slíkar veðsetningar geta aðeins gilt fyrir eitt ár. Jeg hefi annars borið þetta undir bankastjórn fasteignabankans hjer, og kvað hún þetta frv. vera til mikilla bóta. Hjer er aðeins um heimild að ræða, sem bændur geta notað, og geta þeir farið svo varlega sem þeim sýnist. Jeg hefi einnig borið þetta saman við veðdeildarlögin, og er það í fullu samræmi við þau.

Þá sagði háttv. 1. þm. Skagf. (MG), að ekki ætti að gera þessi lög fyrir líðandi stund, heldur framtíðina. Það er einmitt svo um þessi lög. Það er ætlast til þess, að áhafnirnar við jarðimar festist smátt og smátt. Er þess full þörf fyrir bændur, sem eiga yfirleitt mjög erfitt með að borga skuldir sínar. Auðvitað verður altaf eitthvað verðgildi eftir óráðstafað, en þessi lög verða þó altaf til þess að minka það.

Að því er snertir skattfrelsið í tíundar- og lausafjárlögunum, þá kemur það ekki þessu máli við. Það voru oft fleiri kúgildi með jörðunum en svaraði 1 fyrir hver 5 hundruð jarðar, enda altaf hægt að fjölga þeim. Þegar skepnuleiga tíðkaðist mest, þá borgaði sig vel að leigja upp á gamla mátann. En það er nú að leggjast niður. Það opinbera hefir gengið á undan í því að breyta afgjaldinu af jörðunum til peningagjalds, enda er það vel farið. Það verður bara undantekning, ef braskarar græða á þessum lögum. En það verður aldrei hægt að búa til lög fyrir undantekningarnar.