12.04.1924
Neðri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í C-deild Alþingistíðinda. (2108)

113. mál, lokunartími sölubúða

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Þar sem þetta frv. snertir mjög Reykjavíkurbæ, þótti allshn. rjett að senda borgarstjóra frv. til umsagnar. Skrifaði borgarstjóri nefndinni síðan brjef, þar sem hann mælir með því, að frv. verði samþ., en óskar, að því verði bætt við, að bæjarstjórn hafi heimild til að ákveða, hvenær loka skuli þeim sölubúðum, sem selja innlendan varning. Sumar slíkra búða eru, eins og menn vita, opnar löngu eftir að öðrum búðum er lokað, og má þar til nefna sælgætisbúðir. Þótti nefndinni rjett að taka tillit til þessara óska, þar sem þetta er svipaðs eðlis og margt annað, sem bæir setja ákvæði um og hafa vald til að hafa sjerstakar reglur viðvíkjandi. Hinsvegar felst nefndin ekki á að afgreiða frv. í því formi, sem það nú er, og vill láta koma fram í orðalagi þess, hvaða viðbót eða breyting sje hjer gerð á lögunum um lokunartíma sölubúða frá 1917. Ber allshn. því fram till. um nýja frvgr., og er þar einnig tekin með sú breyting, sem kemur fram í brjefi borgarstjórans. Væntir því nefndin þess, að þetta frv. verði afgreitt á þann hátt, sem hún leggur til.