12.04.1924
Neðri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í C-deild Alþingistíðinda. (2122)

70. mál, ritsíma og talsímakerfi

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg ætla mjer ekki að amast við till. nefndarinnar, þó hún hafi felt niður aðra línuna úr frv. mínu. Jeg er þakklátur fyrir að hafa haldið hinni, sem er alveg sjálfsögð, Á Núpi er unglingaskóli, prestur, hreppstjóri og form. Búnaðarsambandsins, og get jeg ekki skilið, að nokkur vilji tefja fyrir því, að þangað komi sími.

Jeg geri það ekki að ágreiningi, þó hin línan verði feld niður að svo stöddu, Að vísu hefir landssímastjóri gefið mjer þær upplýsingar, að auðvelt sje að leggja línu þar, sem um er talað í frv., en hitt kann að vera rjett, að fult svo ódýrt væri að leggja hana frá Mýrum, en þá kæmi hún ekki að eins miklu gagni. En jeg veit, að þetta verður alt rannsakað, að jeg vænti ekki síðar en sumarið 1925, og þar sem framkvæmdir verða sjálfsagt ekki á þessu í bili, má það dragast þangað til.

Hinsvegar vildi jeg skjóta því til hinna, sem komið hafa fram með brtt., hvort þeir vildu ekki taka þær aftur til 3. umr., svo nefndin geti athugað þær nánar og þeir sjálfir rætt um þær við nefndina. Er þetta ekki af því, að jeg vilji líkjast tengdamóður sankti Pjeturs og hrista alla af mjer, sem bjargast vilja, heldur af því einu, að okkur deildarmönnum veitist örðugt að taka afstöðu til slíkra till., án þess að hafa rannsókn og álit nefndar til hliðsjónar.