22.04.1924
Neðri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í C-deild Alþingistíðinda. (2178)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Flm. (Pjetur Ottesen):

Jeg var ekki að kenna nefndinni um dráttinn á máli þessu, síðan að það loks kom frá henni, enda mun hún hafa haft nóg á sinni könnu. En þar sem hv. frsm. meirihl. (ÁF) sagði, að það væri skylda þingsins að flýta ekki fyrir þeim málum, er gengju í skakka átt — og var hann þar með að verja drátt nefndarinnar á því að afgreiða málið — þá vil jeg svara því, að það getur tæplega lýst góðri samvisku að leggjast þannig á mál í nefndum. Því þó nefndarmenn eða einhver hluti nefndarinnar líti svo á, þá líta aðrir þingm. öðruvísi á, og hafa allir jafnan rjett til að láta sinn vilja koma fram; hitt er ofríki og rangsleitni af nefndum að leggjast á mál í því augnamiði að hefta framgang þeirra. Þingið getur gert það, sem því sýnist, er málið er komið úr nefnd, en að svæfa mál þar er að vísu gömul, en illa þokkuð aðferð.

Hv. frsm. meirihl. taldi sig ekki vera mótfallinn miðlunartill. hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Mjer er nú kunnugt um, að kvartanir hafa borist frá Austfjörðum í vetur undan því, hve mikinn usla togarar hafi gert í landhelgi á fiskigengd þangað, og get því eigi sjeð, að meiri ástæða sje til að gera neina undantekningu á refsiákvæðum um veiðar í landhelgi við suðurströnd landsins.

Hv. frsm. (ÁF) talaði líka um, að með þessu frv. væri verið að hefna sín í blindni, og refsingin gæti komið niður á þeim, er síst skyldi. Þetta má líka segja um sektirnar, svo að þetta er ekkert atriði í málinu. En eitt er þó víst, að þetta bitnar þó aldrei nema á þeim, sem til saka hafa unnið. Því miður getur það altaf komið fyrir, að þeir verði ekki harðast úti, sem sekastir eru.

Eitt af því, er sýnir, hve nefndin hefir kastað höndunum til meðferðar þessa máls, er það, að nefndin heldur, að ákvæðið um fangelsisvistina sje nýtt, enda þótt það standi í gildandi lögum og hafi lengi staðið. Það er aðeins síðari hluti greinarinnar, sem er frá mjer runninn, og mjer er fyrir mitt leyti alveg sama, þó þessi ákvæði um fangelsisrefsinguna sje feld niður úr frv., því að þau standa í gildandi lögum jafnt eftir sem áður. En þetta er átakanlegt sýnishorn af fáfræði og hirðuleysi nefndarinnar um að gera sjer fullkomna grein fyrir því máli, sem henni er falið til athugunar. Það hefði vafalaust verið í mestu samræmi við skoðun meirihl., að koma með till. um að fella öll landhelgisgæslulögin úr gildi. Þá væri víst engin hætta á, að gengið væri á rjett fátæklinganna og þeir sviftir eignum sínum og bjargræði. Nei, það er ekki hætt við því!

Það, sem gera þarf er að herða eftirlitið, en meðan þess er ekki kostur sem skyldi, eða því ekki hrundið í framkvæmd svo sem vera ber, þá er þetta óneitanlega spor í áttina og ljettir undir.

Það hefir verið talað um, að þetta yrði oss til skammar. Það var háttv. frsm. meirihl. (ÁF), sem svo komst að orði — hann skortir ekki slagorðin.

Ef þetta frv. verður samþ. og ber tilætlaðan árangur, sem jeg efast ekki um að það geri, þá verður þetta oss til sóma, og gagnið tala jeg ekki um.

Hv. 3. þm. Rv. (JakM) talaði um, að með þessu væri verið að gera upp á milli íslenskra og erlendra skipstjóra, og sagði, að erlendir skipstjórar mættu veiða í landhelgi eftir sem áður fyrir borgun. Það kann satt að vera, að skoða megi sektirnar sem einskonar borgun, en það er þá ekkert einstakt um þessar sektir, heldur gildir það þá um sektir yfirleitt.

Jeg held, að mjer sje óhætt að fullyrða, að hverju einu og einasta fiskiskipi í Englandi og Þýskalandi sje gert að skyldu að vátryggja gegn landhelgisbrotum, og víst er um það, að enginn skipstjóri sleppur þar við að missa rjettindi sín fyrir þessi brot, um tíma a. m. k.

Hv. sami þm. (JakM) vildi bera í bætifláka fyrir íslenska skipstjóra með því, að þeir yrðu sjaldan fyrir sekt. En sannleikurinn er sá, þótt þessi hv. þm. kunni að kalla það slúðursögur, að oftlega er sjeð í gegnum fingur við þá. Mjer er kunnugt um, að bátur hefir verið á verði í Garðsjó í vetur, sem hefir kært 5 togara fyrir ólöglegar veiðar, og af þeim voru 4 íslenskir. Það hefir verið sagt, og er víst engin ástæða til að rengja það, að einn botnvörpungur íslenskur hafi siglt í strand með vörpuna á eftir sjer. (BL: Var ekki náttmyrkur og þoka?) Jú, auðvitað mundi hann annars hafa reynt að halda sjer frá klettunum, því tilætlunin hefir auðvitað verið sú, að veiða í landhelgi, en ekki að stranda. En þetta sýnir, hvað ósvífnin er á háu stigi hjá togaraskipstjórum og fyrirlitningin fyrir lögum og rjetti í landinu. Og einasta ráðið, sem nú að svo stöddu er fyrir hendi til að lækna þetta, er að samþ. þetta frv.

Hv. þm. (JakM) talaði um, að þetta myndi draga úr landhelgisgæslunni. Þessu er ætlað að vera nokkurskonar bráðabirgðaráðstöfun, meðan landhelgisgæslan er svo ófullkomin sem nú er. Þetta á að verða til þess að koma ótta að skipstjórunum, og jeg efast ekki um, að það beri þann árangur, ef það nær fram að ganga. Það er því alveg að hafa hausavíxl á hlutunum að segja, að þetta dragi úr landhelgisgæslunni; það er þvert á móti til að auka hana.

Hv. fjrh. (JÞ) lagði sinn skerf til að eyðileggja málið. Hann reyndi að sýna fram á þann mun, er væri á brotum innlendra og erlendra togara. Brot hinna innlendu væri aðeins einfalt, en hinna tvöfalt.

Lögin eru fyrst og fremst sett til þess, að gera smábátunum kleift að stunda veiðarnar, í öðru lagi til þess að hamla móti því, að með botnvörpuveiðum verði ungfiskinum mokað svo upp, að liggi við upprætingu. Ungfiskurinn heldur sig mikið innan landhelgislínunnar og alveg upp við land sumstaðar. Jeg vil nú spyrja: Er það ekki alveg sama fyrir smábátaveiðarnar og eyðingu ungviðisins, hvort það eru erlendir menn með erlend skip, sem draga upp allan fiskinn fyrir smábátaútgerðinni og spilla og eyðileggja veiðarfæri þeirra, eða innlendir menn á innlendum skipum? Jeg hygg, hvað þetta snertir sjerstaklega, sje þar ekki munur á gerandi. Í báðum tilfellum eru landslögin brotin og söm eru spellvirkin og sama er eyðileggingin.

Viðvíkjandi því, að þeir skipstjórar, sem mist hefðu rjettindi sín hjer á þennan hátt, mundu fara úr landi, verð jeg að halda því fram, að jeg tel mjög óvíst, að íslenskir skipstjórar vogi að tefla svo mjög á tvísýnu, að þeir geri mikið að því að brjóta þessi lög, er þeir eiga rjettindamissi yfir höfði sjer. En hitt getur þó vel verið, að þeir færu hjeðan af landi brott, ef þeir yrðu sviftir rjettindum sínum. En færu þeir til Englands t. d. að taka og ætluðu að gerast skipstjórar á togurum þar, þá yrðu þeir að ganga undir samskonar ákvæði. Færu þeir til Þýskalands í sömu erindum, þá yrði þetta heldur ekki umflúið. Nei, þetta er bara fyrirsláttur. Það er grýla, sem engum reyndar skýtur skelk í bringu, enda er ekki ástæða til að svo sje. En jeg held, að aldrei verði nein brögð að því heldur. Lögin munu verða nægilegt aðhald þessum mönnum til þess að veiða aðeins á leyfðum fiskimiðum, og ef einhver skipstjóri misti rjettindi sín um eins árs skeið, verður það aðeins til þess að skerpa löghlýðni hans betur eftirleiðis, og missi hann þau öðru sinni og um lengri tíma (2 ár), þá mun hann vart vilja eiga það á hættu að missa rjettindi í þriðja sinnið og það fyrir fult og alt. Jeg hygg því, að lögin muni aðeins hafa góð áhrif á löghlýðnina og verða hin mesta vernd gegn landhelgisveiðum.