22.04.1924
Neðri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í C-deild Alþingistíðinda. (2180)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Jakob Möller:

Jeg hygg yfirleitt, að lög sjeu hin sömu í sama landi og gangi jafnt yfir alla, innlenda menn og erlenda, sem þar eru. Þetta er og svo allstaðar í öllum löndum og hjer líka, en með þessu frv., er haldið inn á nýja braut í því að gera mun á innlendum og erlendum mönnum, að því er hegningar fyrir lögbrot snertir. Þetta hefir algerlega ráðið minni afstöðu til þessa máls, og jeg vísa því heim þeim ummælum háttv. þm. Barð., er hann sagði mig vera talsmann lögbrjótanna. Þeir verða þá fleiri, forsvarsmennirnir lögbrjótanna hjer á þingi, því formælendur þessa frv. mætti eins vel kalla talsmenn hinna erlendu lögbrjóta. Háttv. þm. Barð. er einn þeirra, sem vilja gera hjer mismun á og hegna erlendum lögbrjótum vægara en innlendum. En það er algerlega ósæmandi hverju löggjafarvaldi sem er.

Viðvíkjandi till. háttv. samþ. míns, 2. þm. Reykv. (JBald) skal jeg taka það fram, að jeg álít það í sjálfu sjer rjett að leggja mismunandi hegningu við þessum brotum, eftir því, á hvaða svæðum þau eru framin. En jeg vil alls ekki, að farin verði sú leið, sem frv. leggur til. Mjer þætti t. d. rjettara, að sektirnar væru ákveðnar svo háar fyrir brot, framin á tilteknum svæðum, að mönnum þætti áhættan við það að fiska þar of mikil. Það mætti meira að segja gera skipin upptæk, og nær það jafnt til erlendra lögbrjóta sem innlendra, það mundi reynast miklu betur í framkvæmdinni, því að með því væri ekki aðeins innlendu skipunum bægt frá, heldur líka þeim útlendu. En það er ekki verið að hugsa um árangurinn í þessu frv., heldur er það hefndarhugurinn einn, sem ræður stefnu þess. Þetta er orðið að tilfinningamáli, í stað þess að vera skynsemismál. Hefði hv. 2. þm. Reykv. (JBald) komið fram með brtt. um að herða sektarákvæðin fyrir brot, framin á vissum svæðum, hefði jeg vel getað greitt þeirri brtt. atkv., en í rauninni sje jeg vart, að ástæða sje til þess að samþ. frv. til 3. umr., vegna þess, að því verður að gerbreyta svo, ef það ætti að ná að ganga fram, að það mætti eins vel semja nýtt frv. um þetta efni.

Um kærur þær yfir íslenskum togurum á síðasta hausti, sem háttv. þm. Borgf. gat um, hefi jeg ekki fyr heyrt getið og ekki heldur sjeð þess neinsstaðar getið, að þeir hafi verið sektaðir. (PO: Það er fyrir dómstólunum.) Það er þá búið að vera þar alllengi eftir því. (PO: Rjettargangurinn er oft seinn hjer á landi.) Hann er einmitt venjulega fljótur í þessum málum, og virðist þetta helst benda til þess, að það. orki mjög tvímælis, að kærurnar sjeu á rökum bygðar. Styður og þetta það, að ef ætti að fara að refsa innlendum mönnum harðara en öðrum, gæti það orðið seinlegt að fá því komið í framkvæmd, og yrði þá sennilegt, að svo færi, að engir mistu rjettindi þrátt fyrir. framin brot. Er þetta því tilgangslaust lagaákvæði. (PO: Þeir mundu ekki brjóta lögin, ef þetta væri yfir höfði þeim.) Þetta, sem hv. þm. Borgf. færði fram um þessar ákærur frá síðasta hausti, getur aðeins sýnt það, að lögunum sje slælega framfylgt, og því slælegra mun það verða sem lögin eru harðari. par sem hv. þm. Borgf. taldi frv. hliðstætt ýmsum lögum erlendis, þá er þetta alls ekki rjett. Þar er hvergi skylduvátrygging gegn sektum. Vátryggingarfjelögin eru einkafyrirtæki, og mönnum er í sjálfsvald sett, hvort þeir tryggja skipin eða ekki, og koma því ákvæði tryggingarfjelaganna um að reka skipstjórana af skipunum sjaldnast til framkvæmda. Útgerðarfjelögin munu fyrst líta á það, hvort maðurinn sje svo duglegur, að borgi sig að hafa hann, þótt skipin fáist ekki vátrygð, og þó að mennirnir sjeu reknir af skipunum, missa þeir einskis í af rjettindum sínum að lögum, en með þessu frv. er farið fram á það að svifta mennina skipstjórnarrjettindum að lögum, og ekki aðeins á togurum, heldur á hvaða skipi sem er, og er þetta því alls ekki hliðstætt.