22.04.1924
Neðri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í C-deild Alþingistíðinda. (2183)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Jakob Möller:

Jeg þarf að leiðrjetta þennan misskilning hjá hv. þm. Borgf., er hann misskildi svo mjög annaðhvort ræðu mína eða þá sjálfan sig, að hann kemst að þeirri niðurstöðu, að erlendis giltu önnur refsiákvæði fyrir innlenda en fyrir erlenda menn í þeim löndum, og að við yrðum því engin undantekning frá þeirri reglu, ef þetta frv. yrði samþ. En þetta er hin mesta vitleysa hjá hv þm. Það gilda áreiðanlega allstaðar erlendis sömu reglur og hegningarákvæði fyrir lögbrot, jafnt fyrir alla menn, innlenda sem erlenda. Hjer gilda og sömu hegningarákvæði fyrir öll önnur brot, ef lögbrjótarnir á annað borð lúta innlendum hegningarlögum. Þessvegna er það alveg ófært, að samþ. þetta frv., sem fer algjörlega inn á nýja braut í þessum efnum, er það gerir upp í milli innlendra og erlendra manna, sem brotlegir verða við landslögin. Það stendur því óhrakið, sem jeg hjelt fram, að hv. þm. Borgf. og þm. Barð. o. fl. væru óbeinlínis talsmenn og verjendur erlendra lögbrjóta, ef við hinir eigum að vera það sama fyrir þá innlendu. Jeg sje þeim fellur illa að heyra þetta endurtekið, og skil jeg það vel, en þeim er þá rjettast að greiða atkv. móti frv., ef þeir vilja losna undan þessu ámæli.

Það, að það væru yfirvarpsástæður hjá mjer, er jeg taldi mig geta fallist á, að breytt yrði hegningarákvæðunum, en vildi þó eigi greiða þessu frv. atkv. til 3. umr., er eigi rjett. Brtt. hv. 2. þm. Reykv. (JBald), eru þann veg vaxnar, að jeg get eigi að þeim gengið. Hann vill láta rjettindamissinn vera bundinn við brot, framin á ákveðnum svæðum, en jeg vil engan rjettindamissi láta eiga sjer stað. Í stað þess vil jeg herða á sektarákvæðunum, t. d. gæti jeg fallist á, að skipin yrðu gerð upptæk fyrir brot, framin á tilteknum svæðum, og mundi það þá jafnt ná til erlendra sem innlendra skipa. Hann gat þess, að skip mætti gera upptæk í Noregi fyrir landhelgisbrot. Jeg veit eigi, hvort þetta er rjett, en ef svo er, er jeg þess fullviss, að það nær til allra skipa, sem brotleg verða, jafnt erlendra sem innlendra. En stefna sú, sem fram kemur í þessu frv., er þannig, að jeg get alls eigi aðhylst hana, og mun því heldur ekki geta greitt atkv. með frv. til 3. umr.

Ef hv. þm. er áhugamál að bjarga frv., þá vildi jeg ráða þeim til þess að taka málið að þessu sinni út af dagskrá og fresta umr. um það, og koma þá með brtt. síðar.