25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í C-deild Alþingistíðinda. (2193)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Jakob Möller:

Jeg trúi ekki á umhyggju þeirra manna fyrir landhelginni, sem vilja koma fram þessu frv. Jeg hygg, að það sje ekki slík umhyggja, sem vakir fyrir þeim, heldur hrein og bein hefnigirni. Vilji þeir vernda landhelgina, liggur annað ráð miklu nær en þetta. Það er að hækka sektirnar svo mikið, að það borgi sig ekki að fara í landhelgi. Hitt gerir ekkert gagn, að lögfesta hegningarákvæði, sem koma eingöngu niður á íslenskum skipstjórum. Útlendingar fara í landhelgi eftir sem áður, og landhelgin liggur jafnflöt fyrir ágangi þeirra. Er það og hróplegasta órjettlæti að setja lög, sem eingöngu koma niður á innlendum mönnum og erlendir menn, er fremja samskonar lögbrot, sleppa alveg við. Hækkun sekta kæmi aftur á móti jafnt niður á öllum.

Jeg vil því alvarlega skora á hv. deild að fella frv., þó ekki væri nema sóma síns vegna.