25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í C-deild Alþingistíðinda. (2197)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Jakob Möller:

Hv. þm. Borgf. segir, að jeg hafi aldrei farið á flot, en þetta er misskilningur. Jeg hefi ef til vill ekki gert eins mikið að því og hann, en þó hefi jeg borið það við, og skiftir þetta þó í rauninni engu máli.

Hv. þm. kom aftur með þann barnaskap, að íslensku togararnir leiddu útlendinga inn í landhelgina. Þó að hann endurtaki þetta, þá er það sami barnaskapurinn, sem í fyrra skiftið. (PO: Það er staðreynd.) Kvað hv. þm. alveg hafa keyrt um þverbak um landhelgisbrotin síðan íslensku togararnir komu til sögunnar. Jeg vil minna á, að það er ekki langt síðan útlendir togarar hurfu um stund af fiskimiðum vorum, og var þá alment viðurkent, að hin mikla fiskiganga um allar strendur landsins stafaði auðvitað af því, að togaraveiðarnar voru miklu minni en áður. Staðreynd hv. þm. Borgf. sannar því hið gagnstæða við það, sem hann vildi halda fram. Það sanna er, að það er erlenda togaraveiðin, sem er hættuleg fyrir smábátaveiðarnar, þótt ekki væri vegna annars en þess, hve mergðin er margfalt miklu meiri en tala hinna fáu íslensku togara. Það er því þýðingarlítið atriði að koma algerlega í veg fyrir lögbrot íslensku togaranna, en hitt er aðalatriðið að koma í veg fyrir landhelgisveiðar útlendinga, og reynslan hefir sýnt, að það er lífsspursmál. Þetta frv. miðar að því að verja landhelgina fyrir íslensku togurunum, sem eru aðeins örlítill hluti af öllum skipafjöldanum hjer við land.

Hv. þm. Borgf. kvað sig ekki reka minni til þess, að jeg flytti brtt. við frv. um að reikna sektir fyrir landhelgisbrot í gullkrónum. Þetta er alveg rjett. Frv. var flutt af hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), sem lætur sjer mjög umhugað um að koma í veg fyrir landhelgisbrot, og fór hann ekki lengra en þetta. Jeg leit svo á, að þessi hækkun á sektunum, um meira en helming, mundi hafa allmikil áhrif. En þó að hv. þm. V.-Ísf. hafi ekki síðan gengið á móti þessu frv., var það rjettilega tekið upp af honum að fara þá leið að hækka sektirnar. Ef hv. þm. Borgf. hefði viljað beita þeirri aðferð, mundi hann hafa flutt brtt. við það frv. En hann kærir sig ekkert um að koma í veg fyrir, að útlendingar veiði í landhelgi; það eru aðeins íslensku skipin, sem mega það ekki. En eins og jeg hefi tekið fram áður, vakir ekki fyrir mjer, að íslenskum togurum sje ekki varnað að veiða í landhelgi, og hittir það því mig ekki, að íslenskum skipstjórum ætti að vera það ljósara en öðrum, hvaða verk þeir væru að vinna með því. Fyrir mjer vakir, að ekki sje rjett að hafa önnur refsiákvæði um innlenda menn en útlenda. Lögin eiga að vera hin sömu, hvort sem innlendir menn eða útlendir eiga í hlut. Annað er ósæmilegt, og þekki jeg ekki, að það sje í lögum hjá nokkurri siðaðri þjóð, þó að leitað sje um allan heim, nema þá ef vera skyldi á þann veginn, að refsingin sje þyngri á útlendingunum. Hitt getur ekki komið til mála.

Að endingu þetta: Það er alveg skotið yfir markið með þessu, þar sem refsingin á ekki aðeins að ná til þess að svifta menn þeirri atvinnu, sem þeir hafa haft áður, heldur einnig að varna þeim að geta notað sjerþekkingu sína til þess að afla sjer atvinnu. Jeg þykist vita, að það hafi ekki verið tilætlun hv. flm. (PO), en það hefir tekist svona til fyrir honum, þegar hann samdi frv. og hann hefir ekki gert neina brtt., þó að á þetta hafi verið bent.