16.04.1924
Efri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

1. mál, fjárlög 1925

Jóhann Jósefsson:

Jeg get verið hv. fjvn. þessar deildar þakklátur fyrir þær till. hennar, sem sjerstaklega snerta mitt kjördæmi; að hún hefir þar orðið við þeim tilmælum, sem beint var til hennar, bæði frá hæstv. stjórn og frá mjer viðvíkjandi fangahúsi í Vestmannaeyjum. Eins og allir vita, eru Eyjarnar orðnar nokkuð mannmargar, — um 3000 fastra íbúa, en þar að auki má gera ráð fyrir, að á vertíðinni sjeu þar um 700 aðkomufólks, fyrir utan útlendinga. Bærinn hefir undanfarið kostað um 10 þús. kr. til lögreglu árlega, en það hefir komið sjer illa að vera fangahúslaus, og hefir enda orðið ríkissjóði alldýrt, þegar beinlínis hefir þurft að vakta menn, í stað þess að geyma þá í varðhaldi. Bærinn hefir áður haft fangahús um tugi ára, en fyrir tíu árum var það selt. Er það vel farið, að hæstv. stjórn og hv. fjvn. leggja til, að bætt sje úr þessu, og vona jeg, að till. nái fram að ganga.

Jeg ætla ekki að gera að umræðuefni margar af till. hv. fjvn., enda er áður búið að því af ýmsum öðrum hv. þm. Yfir höfuð virðist háttv. fjvn. hafa farið mjög gætilega í sakirnar að auka útgjöldin. En jeg vil leyfa mjer að drepa á það, að jeg fór fram á við hv. nefnd, að hún legði til, að Vestmannaeyjabær yrði á einhvern hátt styrktur til þess að kosta hjá sjer aukalækni. Hann hefir um nokkur ár verið kostaður af bæjarsjóði, sökum þess, að það þótti ekki fært að láta praktiserandi lækni starfa án launa við hlið hjeraðslæknis, sem launaður er af ríkissjóði. Hjeraðslæknir okkar er með lögum skyldaður til að fara út í hvert einasta skip, sem kemur, hvernig sem viðrar. Stafar altaf af þessu smitunarhætta fyrir lækninn. Þess ber líka að gæta, að alls ekki er víst, að menn, sem fara út í skip við Vestmannaeyjar, komist sama dag í land. (Forseti HSteins: Má jeg biðja hv. þm. að vera ekki svo langorður um þetta mál, þar sem það liggur ekki fyrir). Það, sem jeg hefi sagt, stendur í sambandi við fjárveitingu til aukalæknisins á Ísafirði, svo jeg vildi bera þetta saman. Jeg hygg, að enginn geti neitað því með rjettu, að þörf sje á aukalækni í Vestmannaeyjum. En hjer sje jeg brtt. um það, að veita Ísafirði fje til aukalæknis. Hv. fjvn. hefir tekið fram, að ekki sje bein þörf á aukalækni þar. Horfir það dálítið undarlega við, að vera að styrkja lækni þar, sem hans er ekki þörf, þegar nefndin sjer sjer ekki fært að verða við rjettmætum kröfum mínum fyrir hönd Vestmannaeyja um styrk til aukalæknis þar. (JJ: Það er best að flytja hann til eyjanna).

Þá vil jeg aðeins minnast á brtt., sem jeg flyt með hv. 5. landsk. þm. (JJ) um það, að af styrk til dr. Helga Pjeturss verði greidd verðstuðulsuppbót, svo að hún verði 6 þús. kr. Þessi merkilegi vísindamaður, sem hlut á að máli, er íslensku þjóðinni til mikils sóma, og jeg hygg, að það sje í þökk meiri hluta landsmanna yfir höfuð að tala, að dr. H. P. fái lífvænlegan styrk, en það getur sú upphæð ekki kallast, sem háttv. Nd. hefir ætlað honum. Vona jeg, að háttv. deild álíti sem við flm., að þessi vísindamaður sje þessa styrks verður. Aðra brtt. flytjum við hv. 5. landsk. þm. við 16. gr. 13 b, um launauppbót fiskimatsmanna. Sjútvn. hv. Nd. lagði til, að laun þriggja matsmanna yrðu hækkuð. En hún skildi eftir tvo, annan í Vestmannaeyjum, en hinn á Norðurlandi. Skal jeg ekki bera brigður á rjettmæti till. nefndarinnar, svo langt, sem hún náði; en jeg álít enga sanngirni í því að hækka laun sumra yfirfiskimatsmanna, en setja aðra hjá. Jeg get upplýst það, að störf yfirfiskimatsmannsins í Vestmannaeyjum hafa aukist mjög á síðustu 2–3 árum, vegna þess einkum, að útflutningur fisks er stöðugt að komast í fleiri manna hendur. Þeir, sem kunnugir eru fiskimatsstörfum, skilja fljótt, hversu mikið þau aukast við það, að útflytjendum fjölgar; þeim mun fleiri sendingar, skjöl og skilríki að undirskrifa, og þeim mun fleiri staðir að vinna á við eftirlitið. Jeg vænti þess, að hv. deild sjái, að hjer er einungis um sanngirniskröfu að ræða, að þessir tveir menn sjeu gerðir hinum jafnir.

Þá vil jeg leyfa mjer að minnast á brtt. hv. 2. þm. G.-K. (BK) við 14. gr. B. XIV 2, um Flensborgarskólann. Þessi merki skóli virðist oft hafa átt erfitt uppdráttar hjer í þinginu, þó hann sje orðinn 40 ára og hafi ávalt verið álitinn einn besti realskóli landsins. Finst mjer hækkunin, sem till. fer fram á, sanngjörn, og mun jeg fylgja henni.

Þá á jeg í bili aðeins eftir að minnast á brtt. frá hv. fjvn., nr. 5, við 11. gr. B. 6, um landhelgisgæslu. Hún leggur til að hækka liðinn úr 70 þús. í 80 þús. kr., og bætir við: „af þessari upphæð má verja alt að 20 þús. kr. til að útbúa björgunarskipið Þór sem eftirlitsskip“. Er það samkvæmt tilmælum hæstv. stjórnar og sjútvn. beggja deilda. Þykir mjer vænt um, að nú er ætlast til að nota skip þetta meira til landhelgisgæslu en hingað til. Því hefir verið haldið fram, að Þór væri ekki sem fullkomnast strandvarnarskip, og dettur mjer ekki í hug að staðhæfa hið gagnstæða. En jeg lít svo á og býst við, að það verði viðurkent í framtíð, að landhelgisgæsla sú, sem Þór hefir stundað undanfarin ár, sje eins mikils virði og sú gæsla, sem meiri hernaðarbragur er að.

Ef jeg man rjett, mintist hv. 1. landsk. þm. (SE) á það fyrir nokkrum dögum, að Vestmannaeyingar hefðu haldið fram þeirri „teóríu“, að gæsla landhelgi væri best á þann hátt, sem Þór hefði framkvæmt hana, en virtist ekki fallast að öllu leyti á það. Get jeg vel skilið það, vegna þess, að hv. þm. hefir enga aðstöðu til að geta borið um þessa hluti. En hvað sem er um það, er jeg feginn því, að hæstv. stjórn hefir fallist á að verja fje til að útbúa skipið með vopnum, því við það er meðal annars átt með þessari fjárveitingu. Hingað til hefir Þór starfað bæði sem björgunar- og eftirlitsskip, og tel jeg líklegt, að starfsemi hans verði í framtíð tekin til fyrirmyndar. Það er ekki nóg að hlaupa úr höfn einu sinni eða tvisvar í viku, heldur verður gæslan að vera stöðug, eins og hún hefir verið hjá okkur Vestmannaeyingum. Fyrir fám dögum skrapp Þór til Reykjavíkur til að sækja kol. Á meðan urðu miklar skemdir á netum af völdum togara. Þetta sýnir best, hve gæslan þarf að vera stöðug.