09.04.1924
Neðri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í C-deild Alþingistíðinda. (2316)

94. mál, sveitarstjórnarlög

Pjetur Þórðarson:

Mál þetta er ósköp einfalt og óbrotið, og í raun og veru er ekki nema um eitt atriði að ræða og það heldur fyrirferðarlítið. Get jeg því verið fáorður.

Í nál. meirihl. allshn., og eins í ræðu hv. frsm. (JBald), er minst á það, að hjer væri of langt gengið, að heimila útsvarsskyldu á ítök í öðrum hreppum. Jeg held, að þetta sje bygt á misskilningi eða ónógri athugun. Og að með þessu frv. sje verið að elta menn um of með álögum, eins og hv. þm. Ak. (BL) sagði, þá er óhætt að fullyrða, að alt slíkt, sem hann nefndi í þessu sambandi, er til í lögum áður. Breytingin, sem hjer er um að ræða, er aðeins um ítök bænda og annara í öðrum hjeruðum. Það er ekki að neinu leyti verið að ganga lengra með þessu frv. en sanngjarnt er, heldur aðeins tekið inn í atriði, sem liggur nær og virðist hafa sjest yfir, þegar hitt var upp tekið, sem of langt gengur. En hitt er satt, eins og jeg hefi líka látið skína í gegnum greinargerð mína við frv., að áður hafi oft verið gengið lengra en góðu hófi gegnir í því að leggja útsvör á heyskap manna í öðrum hjeruðum. En þegar slík útsvarsálagning á kaupstaðarbúa var heimiluð síðast með lögum 1922, hefir alveg verið gengið fram hjá því atriði, sem frv. mitt tekur upp. Er ekki raunar svo að skilja, að þetta sje mjer kappsmál, en hinsvegar fæ jeg ekki sjeð nje skilið, hvernig aðrir eins menn og þeir, er skipa meirihl. allshn., geta álitið, að með frv. mínu sje gengið of langt eða með því sje verið að seilast lengra en áður hefir verið gert. Að svo sje ekki, er það minsta, sem jeg get gert kröfu til að fá viðurkent.

Það gefur að skilja, og kemur ljóst fram í áliti hv. meirihl., að hann hefir fallist á það, sem jeg ljet á mjer skilja í greinargerð með frv. mínu. Og nær er mjer að halda, að þessir góðu menn hefðu með fullri sanngirni getað gert eitthvað fyrir frv. annað en ráða háttv. deild til að fella það, hefðu þeir lagt alúð sína fram til þess. Og líklegt þætti mjer, að hv. deild viðurkendi nú, að það væri ekki rjett, sem meirihl. nefndarinnar leggur til.